Það er skylda atvinnurekenda að bregðast við athugasemdum starfsmanna um það sem betur má fara á vinnustaðnum og því brást Seðlabankinn vel við með því að leita ráðgjafar Jafnréttisstofu um málverk sem prýddu bankann. Þetta er mat Sonju Þorbergsdóttur, formanns BSRB. Rætt var við hana í Vikulokunum á Rás 1 í dag.

Fréttir af málverkum Gunnlaugs Blöndal í Seðlabankanum hafa verið áberandi í fréttum í vikunni. Annað verkið hékk á vegg við skrifborð karlkyns yfirmanns og fannst kvenkyns undirmönnum hans óþægilegt að leita þangað vegna myndarinnar og var hún því fjarlægð. Hitt verkið var fjarlægt því að óheppilegt þótti að sýna verk af einni nakinni konu innan um fjölda verka af fullklæddum körlum.

Starfsfólk á að láta vita ef farið er yfir mörkin

Sonja segir að umræðan um málið byrjaði hafi hugur hennar leitað þangað að málið væri starfsmannamál en snúist síður um listrænt frelsi. Í jafnréttislögum segi um kynbundna áreitni að það eigi ekki að lítillækka annað kynið og að táknræn framsetning sem þessi sé hluti af því. „Þá auðvitað veltir maður fyrir sér hvort að þetta séu óbein skilaboð um einhvern valdastrúktúr eða eitthvað álíka og þessir starfsmenn sem höfðu kvartað, þeir upplifðu þetta óþægilega og það var farið yfir þeirra mörk.“

Starfsfólk á að láta vita ef eitthvað fer yfir þeirra mörk, að sögn Sonju. „Hins vegar er það skylda atvinnurekanda að bregðast við þannig athugasemdum. Að mínu mati hefur Seðlabankinn brugðist vel við að leita ráðgjafar Jafnréttisstofu í einhverri svona nýrri umræðu hjá þeim til þess að reyna að leysa málin með þessum hætti.“

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra sagði á Alþingi í vikunni að hún væri talsmaður listræns frelsis en að stofnanir eigi að sýna starfsfólki nærgætni og tillitssemi. Í svipaðan streng tók Hugrún Hjaltadóttir, sérfræðingur hjá Jafnréttisstofu, í viðtali í Kastljósi í vikunni. Þar sagði hún að mikilvægt væri að stjórnendur velti því fyrir sér hvernig vinnustaðamenningin hjá þeim væri og hvaða ímynd þeir vilji skapa. Myndskreytingar væru hluti af þeirri umræðu. „Við viljum að öllum sé sýnd virðing og við gerum það líka með vali á myndefni,“ sagði Hugrún í Kastljósi.

Starfsfólk á yfirleitt ekki von á fjölmiðlaumfjöllun

Töluvert var fjallað um málið í fjölmiðlum og fólk deildi skoðunum sínum á því á samfélagsmiðlum. Sonja bendir á að þegar starfsmannamál sem þessi séu til umfjöllunar í fjölmiðlum, sé oft venjulegt fólk þar á bak við sem hafi ekki gert ráð fyrir því að fjallað yrði um mál þeirra í fjölmiðlum. „Þannig að þetta er svona býsna hörð orðræða gagnvart þeim á þessum tíma sem var svolítið óvægin.“ Eitt og hálft ár sé síðan #metoo-byltingin hófst og á þeim tíma hafi mikið verið rætt um virðingu gagnvart fólki og það sé ef til vill eitthvað sem hafa megi í huga þegar mál sem þessi koma upp. 

Nokkuð um kvartanir vegna nektardagatala

Ekki er algengt að starfsfólk kvarti undan listaverkum en öðru máli gegnir þó um dagatöl með nektarmyndum og annað táknrænt á vinnustöðum, að sögn Sonju. „Við erum komin á þann stað að nektardagatölin eigi ekki við.“ Lengra sé þó í skilning varðandi aðra hluti sem geti verið óþægilegir fyrir starfsfólk. Hún hvetur fyrirtæki til að leita til Jafnréttisstofu eftir ráðgjöf þegar slík mál koma upp.

Í spilaranum hér fyrir ofan er hægt að hlusta á þann hluta þáttarins er rætt var um listaverkin í Seðlabankanum. Aðrir gestir þáttarins voru Sigrún Magnúsdóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra, Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi fjármálaráðherra og Jón Trausti Reynisson, ritstjóri Stundarinnar.