Rekstrarumhverfi veitingahúsa hefur harðnað mikið á síðustu misserum að sögn veitingamanna. Hátt í 10 veitingastaðir hafa lokað dyrunum á síðasta ári í miðbæ Reykjavíkur.
Þó nokkuð hefur borið á því að veitingastaðir, bæði nýir sem og rótgrónir, hafi þurft að leggja upp laupana. Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustu, segir veitingahúsageirann vera með minnstu framlegðina og fram undan sé tími samruna og breytinga á markaði. „Það er ýmislegt sem getur haft áhrif á þennan rekstur og undanfarin tvö ár þá er ljóst að rekstrarumhverfi veitingastaðanna hefur breyst töluvert til hins verra.“
Jóhannes segir ljóst að komandi kjaraviðræður muni hafa mikil áhrif. „Ef við horfum á þær kröfur sem hafa verið lagðar fram um miklar hækkanir á launaliðnum þá er ljóst að veitingastaðir munu eiga erfitt að koma til móts við það eins og staðan er núna.“
Veitingamenn hafa ekki farið varhluta af þessari þróun. Jakob E. Jakobsson, framkvæmdastjóri Jómfrúarinnar og stjórnarmaður Samtaka ferðaþjónustu, segist hafa heyrt af því að margir staðir væru í vandræðum. „Ísland og Reykjavík og miðbærinn, við erum að bjóða góð verð í alþjóðlegum samanburði, góðan mat, háan standard heilt yfir en auðvitað er aukin samkeppni og það virðist kannski hafa þær afleiðingar að öllum gengur jafn illa eða það hefur harðnað á dalnum, ekki spurning.“
Jakob segir hátt í 10 staði hafa lokað á síðasta ári. Hann segir það borðleggjandi að veitingastaðir séu farnir að reiða sig mun meira á erlenda ferðamenn en áður fyrr.
Aðspurður hvort þessi þróun gæti haldið áfram segir Jóhannes það þurfi að koma í ljós. „Ég held að það fari mjög mikið eftir því hvernig spilast kjarasamningum hvaða þróun verður í rekstri veitingastaða núna á næsta hálfa til einu ári.“
Hefuru áhyggjur af því? „Já ég hef töluverðar áhyggjur af því ef ég á að segja alveg eins og er.“