Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir flokkinn reiðubúinn til formlegra stjórnarmyndunarviðræðna við Vinstri græn og Framsóknarflokk. Samhljómur sé milli flokkanna þótt áherslurnar séu ólíkar. Þá segist hann opinn fyrir viðræðum um það hver leiði ríkisstjórnina, verði af viðræðum. Ekki væri ólíklegt að Sjálfstæðisflokkurinn gerði kröfu um fleiri ráðherrastóla á móti.

Jóhann Bjarni Kolbeinsson ræddi við Bjarna í Valhöll að loknum þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins. „Þetta snýst um hvort við ætlum að taka eitt skref í viðbót og láta reyna á það að formgera málefnasamning. Nú eru allir þingflokkarnir að bera saman bækur sínar, sýnist mér, í dag,“ segir Bjarni. 

Bjarni segir alla þingflokkana hafa þurft að hittast til að taka afstöðu til þess hvort haldið verði áfram. „Ég lagði upp með það við minn þingflokk að við gerðum það, að við létum reyna á að ramma inn þennan málefnasamning og það fékk góðar undirtektir í mínum þingflokki. Við skulum sjá hvernig þetta kemur út úr öðrum þingflokkum. Þetta er auðvitað bara eitt skref. Við höfum bara verið með þetta lausbundið fram til þessa en það er góður samhljómur um meginverkefnin þó að það sé alltaf áherslumunur milli flokka.“

Þarf að ræða forystu í víðara samhengi

Aðspurður hvort það komi til greina að Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, verði forsætisráðherra, segist hann hafa verið opinn fyrir því hvernig ríkisstjórnin verði leidd. „Ég hef lengi talað fyrir því að þetta séu ekki tímar í íslenskum stjórnmálum þar sem menn eiga að taka sjálfa sig fyrir og gera sig og sín helstu áherslumál að aðalatriði. Ég hef aldrei verið í stjórnmálum á þeim forsendum. Við erum í þessu til þess að ná árangri fyrir samfélagið og við þurfum að koma okkar áherslumálum að við stjórn landsins en við viljum gera minna úr hlut einstaklinganna. Ef og þegar við ræðum um forystu fyrir ríkisstjórnina þá þarf auðvitað að ræða hluti í víðara samhengi og ég treysti mér ágætlega til að eiga það samtal við þessa tvo formenn.“

Aðspurður um það hvort Sjálfstæðisflokkurinn myndi gera kröfu um fleiri ráðherrastóla á móti, svarar Bjarni: „Við skulum segja að það væri ekki ólíklegt.“