Gunnhildur Una Jónsdóttir lýsir eftirköstum raflostsmeðferðar í bókinni Stórar stelpur fá raflost. Hún glataði minningum sínum við meðferðina og lifði í tvöföldum veruleika eftir hana. „Ég hef tekið þátt í atburðum sem eru hluti af minni annarra en ekki af minni mínu. Þá spyr ég hver er raunveruleikinn?“

Bókin Stórar stelpur fá raflost er fyrsta  bók Gunnhildar Unu Jónsdóttur. Titillinn er tilvísun í þekkt lag Bubba Morthens, sem hún man eftir að hafa heyrt fyrst í skólaferðalagi þegar hún var 12 ára. „Þetta var náttúrulega stuðandi lag og maður sá fyrir sér tryllta pönkara sem þyrfti að hemja niður. En svo kom að því í ævi minni að ég var sú sem fékk raflost,“ segir Gunnhildur í viðtali í Kiljunni.

Gunnhildur er greind með geðhvörf. Árið 2016 veiktist hún alvarlega af aukaverkunum af lyfjum til meðhöndlunar á sjúkdómnum. „Ég var mjög kreppt í höndunum, átti erfitt með að ganga og gat ekki keyrt. Ég var virkilega líkamlega veik og var lögð inn á geðdeild. Öll þessi lyfjasúpa sem hafði verið sett á mig var tekin í burtu, allt nema lithium, og við tók þvílíkt svartnættisþunglyndi. Mér var ráðlagt að fara í raflostsmeðferð. En ég man hins vegar ekkert eftir þessu því ég missti minnið við þessa meðferð.“ Hún fékk sex sinnum raflost í meðferðinni.

Við upphaf bókarinnar er hún að miklu leyti minnislaus. „Þetta var eins og ég hefði lent úr einhverri tunglferð inn í stofu hjá mér. Mamma var þar og börnin mín og ég áttaði mig á því að það var eitthvað skrýtið í gangi.“ Þegar henni var sagt að hún hefði verið á spítala í þrjár vikur þá kannaðist hún ekkert við það. „Ég sagði bara nei, það getur ekki verið.“ Hún trúði því ekki að hún hefði samþykkt það að fara í raflostsmeðferð, „en þau sögðu öll að ég hefði verið mjög hlynnt þessu. Mér leið svo illa.“

Gunnhildur segist eftir það hafa lifað í tvöföldum veruleika. „Ég mundi ekki fjögur og hálft ár aftur í tímann, þegar ég hafði skilið. Ég vissi ekki af hverju ég hafði skilið, ég vissi að ég átti þrjú börn, og pabbi þeirra bjó ekki hjá mér. Ég skildi bara ekkert í því. Þessar elstu minningar komu til baka hálfu til einu ári seinna en minnisleysið, þetta ár frá haustinu 2016, það varir ennþá. Ég hef tekið þátt í atburðum sem eru hluti af minni annarra en ekki af minni mínu. Þá spyr ég hver er raunveruleikinn þarna? Það dreif mig áfram í að skrifa þessa bók, til þess að skilja og búa til minn raunveruleika upp á nýtt.“

Í bókinni rifjar Gunnhildur upp sögu langömmu sinnar, sem átti einnig við geðsjúkdóm að stríða. „Ég hef heyrt útundan mér að hún hafi verið óluð niður á hest og flutt til Reykjavíkur,“ segir Gunnhildur. Hún var lögð inn á Kleppsspítala, sem þá var nýstofnaður, og var þar í tíu ár. „Eina umönnunin í raun og veru var að loka fólk af, fjarlægja það úr samfélaginu. Svo voru notaðar harkalegar aðferðir eins og köld böð og húsgagnalausar sellur þar sem hægt var að loka fólk inni.“

Gunnhildur byrjaði að skrifa bókina í tjaldi vestur á fjörðum, á Flateyri þar sem langamma hennar bjó. „Ég hafði ekkert endilega í huga að gefa þetta út. Þetta var bara mín leið til að ná í sjálf mitt aftur. Ná í röddina mína, vera til og púsla mér saman.“