Andið eðlilega eftir Ísold Uggadóttur er sterkt byrjendaverk, napurt raunsæisdrama sem ekki er hægt að horfa á án þess að tárast eða reiðast, að mati gagnrýnenda Menningarinnar.

Andið eðlilega er frumraun Ísoldar Uggadóttir, sem bæði skrifar handritið og leikstýrir en hún vann til verðlauna á Sundance-kvikmyndahátíðinni í Bandaríkjunum í janúar. Myndin fléttar sögu tveggja kvenna; íslenskrar einstæðrar móður flóttakonu frá Gíneu Bissá.

Bryndís Loftsdóttir lýsir myndinni sem kaldranlegri.  

„Það er leikið mjög á napurleikann og allt umhverfi myndarinnar er mjög napurt, stundum of, vegna þess að það skapaði svolítið tilbreytingarleysi og myndin er mjög hæg. En það er mikið leikið án orða og manni eru ekki veittar mjög miklar upplýsingar. Það virkar en mætti ekki vera minna. Ég persónulega er hrifinn af meira kjöti á beinunum, ég vil fá meiri sögu og fá að vita meira um karakterana en ég virði þennan stíl, því hún er svo raunveruleg og ótrúlega vel leikin.“

Snæbjörn Brynjarsson segir að líklega hafi ekki verið gerð jafn sterk félagsraunsæislega mynd á Íslandi áður, þar sem bæði er verið að fjalla um velferðarkerfið á Íslandi og málefni flóttamanna. 

„Þetta er höfundur sem hefur eitthvað að segja, hún er að gagnrýna kerfi sem hún er reið út í. Maður getur ekki farið á þessa mynd án þess að tárast eða verða reiður yfir því því við vitum að þessi mál eru í ólagi hérna Íslandi.“

Þau hrósa leik í myndinni, en fundu að predikunartón og klisjum, sem gerðu stundum vart við sig í handriti og persónusköpun. Heildarútkoman væri engu að síður afar sterk. 

„Maður finnur að Ísold brennur þetta mál á hjarta og vill að við áhorfendur bregðumst við og breytum samfélaginu,“ segir Snæbjörn.  
„Já, það er sannarlega enginn byrjendabragur. Þetta er ótrúlega flott fyrsta mynd hjá Ísold.“

Fjallað var um Andið eðlilega í Menningunni. Horfa má umfjöllunina hér að ofan sem og óstytta útgáfu þáttarins, þar sem einnig var fjallað um Víti í Vestmannaeyjum.