„Ég held að þetta séu mjög raunhæfar og góðar tillögur í alla staði. Það er komið inn á mjög marga þætti þarna. Nú hefst þessi vinna og samtal milli aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda,“ segir Ásmundur Einar Daðason, ráðherra húsnæðismála, um tillögur starfshóps í íbúðarmálum. Gísli Gíslason, annar formanna starfshópsins, óttast ekki fjárskort. „Það er alveg nýtt á Íslandi um þessar mundir ef fjármagn vantar til framkvæmda.“

Starfshópur stjórnvalda í húsnæðismálum skilaði í gær af sér skýrslu með 40 tillögur að úrbótum á húsnæðismarkaði. Fjallað var um tillögurnar á fundi Íbúðalánasjóðs í dag. 

Í spilaranum að ofan má sjá viðtöl við Ásmund Einar Daðason, Gísla Gíslason, Önnu Guðmundu Ingvarsdóttur og Ólaf Heiðar Helgason, hagfræðing hjá Íbúðalánasjóði.

Félagsmálaráðherra lýsir mikilli ánægju með tillögurnar. „Ég held að þær séu mjög góðar. Þarna hefur verið unnið gott starf og ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á það að ná utan um þetta mál í heild sinni og fá alla að borðinu. Það hefur tekist þarna. Nú reynir á hvernig aðilum vinnumarkaðarins gengur að semja sín á milli og hvernig formlegt samtal stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins í framhaldinu gengur.“

Miklu fleiri tækifæri en hindranir

Gísli Gíslason, annar formaður starfshópsins, telur að tillögurnar geti skilað árangri. „Ég held að það séu ekki endilega margar hindranir. Ég held að það séu miklu fleiri tækifæri í þessum tillögum. Vissulega eru stór atriði sem þarf að útfæra nánar en þetta er vegvísir að leið sem gæti gagnast býsna mörgum og sett ákveðna stefnu í hvaða átt menn vilja fara.“

Tillögurnar eru ekki fjármagnaðar og ekki búið að greina kostnað við þær. „Þær eru vissulega raunhæfar. Þær eru vísir að leiðum. Það er alveg augljóst varðandi almenna íbúðakerfið, varðandi leigumálin, varðandi almenningssamgöngurnar, varðandi stjórnsýsluna og svo framvegis að þarna eru tækifæri til að gera betur og skerpa á hlutum varðandi húsnæðismarkaðinn,“ segir Gísli. „Það er hægt að fara langt og það er hægt að fara skammt í að vega og meta hvaða kostnað menn leggja í tillögurnar eftir því hvernig þær virka fyrir almenning.“

Gísli segir að það kosti pening að hrinda tillögunum í framkvæmd en það kosti líka pening að gera það ekki. Aðspurður um hugsanlegan samdrátt á útlánum til húsnæðisuppbyggingar segir Gísli það vera utan síns sérsviðs. „En hins vegar þá held ég að það sé nægjanlegt fjármagn í þessu landi til að lána á rétta staði á réttum kjörum,“ og bætir við. „Það er alveg nýtt á Íslandi um þessar mundir ef fjármagn vantar til framkvæmda,“ segir Gísli.

Horft á fjármögnun félagslega hlutans

„Það sem átakshópurinn hefur verið að horfa á er fjármögnun þess hluta uppbyggingarinnar sem er meira félagslegur. Það er að segja almenna íbúðarkerfið og einhverjar stuðningsaðgerðir stjórnvalda fyrir tekju- og eignalægri tila ð komast yfir þennan þröskuld að koamst inn á markaðinn,“ segir Anna Guðmunda Ingvarsdóttir, aðstoðarforstjóri Íbúðalánasjóðs og annar formanna starfshópsins. „Ef vísbendingar eru u m að aðgangur að lánsfé er eitthvað að minnka er það eitthvað sem þarf að skoða sérstaklega.“