„Þetta er margradda saga um yfirgengilega atburði sem Kim Leine segir frá með sínu gróteska raunsæi og sinni makalausu stílgáfu sem að lyftir botnlausu klandri og skefjalausri ógæfu þessa fólks upp á annað plan,“ segir Jón Hallur Stefánsson þýðandi um Rauður maður / Svartur maður, annað bindið í sögulegri Grænlandstrílógíu Kim Leine.

Í þessu öðru bindi trílógíunnar leitar Leine fanga aftur til 18. aldar í nýlendustofnun Dana á Grænlandi og upphaf kristniboðs. „Bókin hefst á því að Friðrik IV. Danakonungur hrindir nýlenduáformum sínum í framkvæmd með því frekar vafasama snjallræði að safna saman hóp af refsiföngum, jafnmörgum konum og körlum, vígja allan mannskapinn í hjónaband eftir að hafa látið fólk draga um hvern það hreppti,” útskýrir Jón Hallur „og senda þetta vesalings fólk til Grænlands ásamt herflokki, embættismönnum og iðnaðarmönnum. En þetta ævintýri fer nú eiginlega eins illa og hægt er, má segja.“

Titillinn vísar til grænlenska særingamannsins Aappaluttoq, eða Rauðs, sem bjargar fársjúkum syni sínum með því að koma honum í fóstur hjá norska trúboðanum Hans Egede, svarta manninum. Presturinn skírir drenginn hins vegar til kristni og vill ekki skila honum til Aappaluttoq, en þá hefjast átök mannanna tveggja um drenginn.

Rætt verður um Rauður maður / Svartur maður eftir Kim Leine í þættinum Bók vikunnar á Rás 1, sunnudaginn 10. febrúar.