Þegar Sigurjón Jónsson jarðeðlisfræðingur fór að skoða jarðskjálfta á Suðurlandi, skömmu eftir stóru skjálftana árið 2000, vakti það athygli hans hve margir stórir skjálftar höfðu orðið að sumarlagi. Hann fór að leita fyrir sér í gömlum heimildum og sá að það er vitað hvenær rúmlega 30 stórir jarðskjálftar, sem ollu tjóni og eignarspjöllum á Suðurlandi, urðu, eða að minnsta kosti á hvaða árstíma. Þetta þótti honum einkennilegt og langaði að kanna málið nánar. 

Gæti verið tilviljun, en þó varla

„Ef maður skoðar hversu margir verða að sumri til og hversu margir að vetri, þá er meginþorrinn að sumarlagi. Það gæti verið tilviljun en þegar þetta eru orðnir svona margir jarðskjálftar er hægt að leika sér með tölfræðileg próf. Og mér telst til að það sé vissulega möguleiki að þetta sé tilviljun en nánast bara 1/200 að svo sé. Þess vegna er líklegt að það sé eitthvert ferli í náttúrunni, eitthvert árstíðabundið ferli, sem virðist hafa áhrif á hvenær þessir skjálftar fara af stað,“ segir Sigurjón. 

Landið dúar undan snjófargi

En hvaða náttúrulega ferli gæti haft þessi áhrif? Sigurjón hefur athugað nokkra mismunandi þætti. 

„Það eru ýmis árstíðabundin ferli hér á landi. Við þekkjum auðvitað hitastig, og úrkoma er til dæmis meiri á haustin en vorin og loftþrýstingur er hærri að vori að meðallagi en á vetrum. Svo höfum við snjóalög og eitt af því sem við til dæmis tökum eftir í okkar mælingum er að, aðallega vegna snjófargs á hálendinu og á jöklum, þá má segja að landið dúi um einn til tvo sentimetra. Þetta er svolítið merkilegt. Þetta er eitthvað sem hefur verið að koma í ljós með GPS landmælingatækni á síðustu árum,“ segir Sigurjón.

Hann bendir á að á Suðurlandsundirlendinu, um 100 km löngu belti frá Bláfjöllum í vestri að Heklurótum í austri, sé reyndar frekar snjólétt og ekki mikið snjófarg. „Hins vegar fellur heilmikill snjór í fjöllunum í kring, í Hreppafjöllunum og Tindfjöllum, Torfajökulssvæðinu og þar austur af og líka á Bláfjalla- og Hengilssvæðinu og þetta farg veldur því að Suðurlandsundirlendið sjálft dúar svona 5-10 mm á ári. Það er þá fargið sem er í kringum Suðurlandsundirlendið,“ segir Sigurjón. „Þetta er líkt því og þegar maður ýtir lófanum niður á dýnu, þá fer líka svæðið í kringum lófann niður. Því dúar miðhálendið enn meira en Suðurlandsundirlendið.“

Hreyfingar valda spennubreytingu

Þetta er hægt að mæla. „Þetta eru auðvitað hægar hreyfingar, árstíðabundnar hreyfingar. En þær valda spennubreytingum inni í jarðskorpunni sem við getum reynt að reikna út. Þær spennubreytingar þegar snjóa leysir og landið lyftist geta hjálpað til við að koma jarðskjálftum af stað. Þó að við mælum þetta sem talsverðar hreyfingar í GPS-mælingum eru þær frekar litlar og ekki endilega það ferli sem að mest áhrif hefur en gætu hugsanlega eitthvað haft að segja,“ segir Sigurjón.  

Því hefur hann líka kannað aðra möguleika. Til að mynda breytingar á grunnvatnsstöðu á Suðurlandi, þegar snjóa leysir á vorin. „Þá kemur geysilega mikið vatn af hálendinu. Bæði sem leysingavatn í ám og það hækkar líka grunnvatnsstöðuna. Ef eitthvað af þessu vatni nær að fara djúpt niður í jarðskorpuna, segjum á nokkurra kílómetra dýpi, eftir sprungum og öðrum auðveldum leiðum, getur vatnsþrýstingur á talsvert miklu dýpi aukist og það getur lík hjálpað til við að koma jarðskjálftum af stað. Þetta er annað ferli sem ég hef verið að reyna að átta mig á hvort sé jafnvel sterkari þáttur í áhrifum á jarðskjálftavirknina." 

Hlusta má á viðtalið við Sigurjón Jónsson jarðeðlisfræðing í Samfélaginu á Rás 1 í spilaranum hér að ofan.