Rannsókn rannsóknarnefndar samgönguslysa á því þegar vél Primera Air fór út af flugbrautarenda í lendingu á Keflavíkurflugvelli í apríl á síðasta ári beinist meðal annars að veðri, framkvæmdum á flugvellinum, undirbúningi flugs, lendingarskilyrðum og framkvæmd lendingarinnar. Málið er enn í rannsókn.
Keflavíkurflugvelli var lokað eftir slysið en mikil snjókoma var þegar vélin fór út af flugbrautinni. 137 farþegar voru um borð auk sex manna áhafnar en engan sakaði.
Hólmfríður Þórisdóttir, einn farþeganna, sagði í samtali við fréttastofu að vélin hefði tekið á loft þegar hún var nærri því að lenda og flogið einn hring. „Svo reynir hann lendingu og það vill ekki betur til en svo að vélin hún fer út af brautinni, framan af brautinni og við finnum ekki, farþegarnir, að hann sé að bremsa. Það hefur sennilega verið svona hált. Hún fer framhjá girðingum og öðru og nú er vélin við enda brautarinnar og er föst utan hennar.“
Fram kom í fréttum RÚV að mörgum farþeganna hefði verið mjög brugðið en vélin var að koma frá Alicante á Spáni. Talsverðar tafir urðu á flugi til Keflavíkur. Flugvélum sem áttu að lenda á Keflavíkurflugvelli strax eftir atvikið var flogið annað og daginn eftir voru margar vélar að lenda um og yfir tveimur klukkustundum seinna en áætlað var. Nánast engar seinkanir urðu á brottför vélanna.