Rafvæðing krefst orku á við Kárahnjúkavirkjun

10.01.2017 - 17:17
Þörf fyrir raforku myndi aukast um sem samsvarar heilli Kárahnjúkavirkjun verði orkuskipti í samgöngum og iðnaði að veruleika, það er ef nær öllu jarðefnaeldsneytiskipt væri skipt út fyrir rafmagn. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem VSÓ ráðgjöf vann fyrir Landsnet. Gert er ráð fyrir að með slíkri rafvæðingu mætti minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 1,4 milljónir tonna á ári.

Sverrir Jan Norðfjörð, framkvæmdastjóri Landsnets, og Auður Magnúsdóttir, umhverfisstjórnunarfræðingur hjá VSÓ ráðgjöf segja þessa þróun tæknilega mögulega. 

„Það sem við erum að skoða með þessum frekari orkuskiptum, eins og við köllum það, er bara hvað þyrftum við mikið rafmagn ef við myndum rafvæða allan bílaflotann, allar fiskimjölsverksmiðjur, ganga eins langt og við höfum upplýsingar um að sé mögulegt, hvað það myndi þýða í sparnaði á Co2, þetta er svona besta tilfellið, þannig séð eða versta, eftir því hvað þú vilt kalla það.“ 

segir Auður. Þessi athugun tekur ekki mið af áætlunum stjórnvalda, fer langt fram úr þeim. 

„Við erum eingöngu að horfa á það sem hægt er að gera og við þekkjum, með því að skipta úr olíu yfir í raforku. Við erum ekki með innanlandsflug eða eitthvað svoleiðis inni í þessum tölum,“

segir Sverrir.

Íslenskir bændur gætu tekið yfir tómatamarkaðinn

Tómatasneiðar á flugi.
 Mynd: Daniel Nanescu  -  Splitshire
Ríflega helmingur tómatanna sem seldur er hér á landi er íslenskur.

Samdrátturinn sem orkuskipti gætu leitt til nemur þriðjungi heildarlosunar ársins 2014. Langmest myndi muna um rafvæðingu samgangna og hún skilar meiri loftslagsávinningi á Megawatt en aðrar aðgerðir. Orkuskiptin fælu samkvæmt greiningu VSÓ í sér að fólksbílar, strætisvagnar, flutningabílar, bílaleigubílar og hópferðabílar yrðu rafvæddir. Rafmagn kæmi að einhverju leyti í stað jarðefnaeldsneytis í iðnaði og rafvæðingu fiskimjölsverksmiðja yrði lokið, en þær brenna í dag svartolíu. Skip í höfnum gætu tengst rafmagni í landi og íslenskum bændum yrði gert kleift að sjá íbúum landsins alfarið fyrir tómötum, gúrkum, papríkum og afskornum blómum. Það þyrfti því ekki að flytja þessar vörur inn. Þetta yrði talsverð breyting. Í dag er salat að mestu leyti innflutt og sama gildir um papríkur. 

Mynd með færslu
 Mynd: Rúv

Í greiningunni er gengið út frá ýmsum forsendum, til dæmis því að ferðamönnum fjölgi í takt við spá ISAVIA og bílaleigubílum sömuleiðis og að nokkuð dragi úr raforkunotkun heimila, vegna þess að notkun sparpera og sparneytinna tækja eykst. 

Óljós þróun - margar sviðsmyndir

Þegar vinna við kerfisáætlun Landsnets fyrir árin 2016 til 2025 hófst varð fljótlega ljóst að erfitt gæti reynst að kortleggja raforkuþörf næstu ára af nákvæmni, einkum vegna þess að óeining ríkir um stefnu í orkumálum. Því var ákveðið að varpa fram sviðsmyndum um hver þróunin gæti orðið fram til ársins 2030. Sú fyrsta gerir ráð fyrir hægum breytingum, önnur gerir ráð fyrir auknu álagi á flutningskerfið vegna hraðrar atvinnuuppbyggingar, sú þriðja gerir ráð fyrir rafvæðingu í samræmi við áætlanir stjórnvalda og 7% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda miðað við árið 2014 og sú fjórða gerir ráð fyrir sæstreng, nýtingu vindorku og 7% samdrætti í losun. Það að kanna hvað allsherjar orkuskipti hefðu í för með sér var í raun hliðarverkefni, ekki raunveruleg sviðsmynd.

Hlutfall rafbíla enn lágt

Það þyrfti mikið til, ætti hlutfall vistvænna bíla að vera komið upp í 100% innan 13 ára, það er einungis um 2% í dag. Stjórnvöld stefna að því að hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum á landi verði 30% árið 2030. Næst það? 

„Þetta eru þrettán ár, þannig að það er spurning hvað við endurnýjum flotan hratt, við skiptum kannski um bíl á tíu árum,“

segir Sverrir. 

„Svo eru það aftur áherslur stjórnvalda,“

segir Auður. 

Þyrfti að virkja

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson  -  RÚV
Hálslón.

Ef það ætti að ráðast í full orkuskipti þyrfti væntanlega að virkja meira, orkuþörf munid aukast um 680 til 880 Megawött. Hér takast kannski á ólík umhverfissjónarmið, það er annars vegar loftslagsávinningur, hins vegar umhverfis áhrif virkjana. 

„Einhverjir virkjanir myndu koma þarna með, það má velta því fyrir sér hvort það megi fá meira út úr þeim, það eru nokkur dæmi um það að verið sé að stækka þær til þess. Það var frétt í kringum áramótin þar sem menn voru að breyta viðskiptasamningum til að fá betri nýtingu. Þetta er örugglega ekki eitthvað eitt heldur eitthvað samansafn af aðgerðum,“

segir Sverrir. 

Flutningskerfið anni ekki eftirspurn

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson  -  RUV.IS
Raflínur.

Sú sviðsmynd sem fellur að áætlunum stjórnvalda um orkuskipti krefst samkvæmt greiningunni einnig aukinnar orku, allt að 346 megawatta viðbótar. Það er á við uppsett afl Búrfellsstöðvar og Búðarhálsstöðvar samanlagt. Að sögn Sverris myndi það kosta 40-70 milljarða að styrkja flutningskerfið svo þessi sviðsmynd geti orðið að veruleika. Hraðhleðslustöðvar fyrir bíla eru þá ekki taldar með. Sverrir segir að í dag anni flutningskerfið ekki eftirspurn og standi því í raun í vegi fyrir frekari orkuskiptum. 

„Það er farið að hamla, við erum með fyrirtæki í dag sem geta valið milli þess að nota raforku eða olíu en þau hafa í raun ekki kostinn á raforkunni því það er ekki nægilega sterkt kerfi til að anna því. Sú þróun er í raun hafin. Við leggjum auðvitað áherslu á að styrkja kerfið, það er sú leið til að vinna gegn því,“

segir Sverrir.  

Auður bendir á að framkvæmdir taki tíma. 

„Það er oft talað um það í loftslagsmálum að við séum að renna út á tíma. Allar svona áætlanir og aðgerðir taka gífurlegan tíma.“

Sverrir samsinnir því. 

„Við sjáum að það að byggja sterka tengingu milli landssvæða, undirbúningur getur tekið áratug.“

Því verði að ráðast í aðgerðir sem fyrst, eigi rafvæðing samgangna að verða hluti af framlagi Íslands á sviði loftslagsmála. 

Mynd með færslu
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV
Spegillinn
Þessi þáttur er í hlaðvarpi