„Hann hefði átt að henda því beint í ruslatunnuna en ekki einu sinni að senda þetta drasl til umsagnar,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda um frumvarp Óttarrs Proppé, heilbrigðisráðherra, um rafrettur.
Ólafur var í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun til að ræða um frumvarpið, sem hann segir að sé illa unnið. Engin greinargerð fylgi frumvarpinu og því lítið hægt að átta sig á rökunum fyrir því að það hefur verið lagt fram.
Illa undirbúið og illa hugsað
„Ef maður sæi greinargerð með þessu frumvarpi, þá væri kannski hægt að ræða þetta kannski á meiri vitrænum nótum við ráðuneytið. En það virðist bara vera, hugsunarhátturinn virðist vera þessi; við erum búin að ákveða það hér að rafrettur séu jafn slæmar og sígarettur og hafið þið það. Það þarf ekkert að ræða það neitt frekar. Okkur finnst að það þurfi að ræða það frekar, okkur finnst þetta vera illa undirbúið, illa hugsað og það þurfi að vinna þetta mál í rauninni allt saman upp á nýtt,“ sagði Ólafur, sem gagnrýndi Óttarr Proppé harðlega.
„Ég í raun skil ekkert í nýjum heilbrigðisráðherra að slengja þessu fram. Þetta er augljóslega eitthvert embættismannafrumvarp, eitthvað svona hvernig embættismönnum í ráðuneytinu finnst að lífið eigi að vera og nýja ráðherranum er bara rétt það,“ sagði Ólafur, áður en hann sagði að heilbrigðisráðherra hefði átt að henda frumvarpinu í ruslið.
Galið að sömu reglur gildi um rafrettur og sígarettur
„Það er lagt til að það gildi sömu reglur um rafrettur og sígarettur, venjulegar sígarettur með tóbaki. Út frá því er bara hægt að álykta að ráðuneytið hugsi sem svo; rafrettur eru bara alveg eins og sígarettur. Maður þarf ekki að hafa kynnt sér málið nema í fimm mínútur til að vita að svo er alls ekki. Þess vegna er þetta galið frumvarp, það er ekki hægt að leggja þetta tvennt að jöfnu,“ segir Ólafur.
Himnasending fyrir fólk sem vill hætta að reykja tóbak
Guðrún Sóley Gestsdóttir, stjórnandi Morgunútvarpsins, spurði þá hvort ekki væri rétt að fólk, sem ekki reykti, nyti vafans af banninu. Ekki hefði verið skorið úr um hvort rafrettur væru skaðlegar heilsu fólks.
„Það eru skiptar skoðanir um skaðsemi eða skaðleysi rafretta. Sumir telja þær vera mikla himnasendingu, sérstaklega fyrir fólk sem vill hætta að reykja. Það er þarna komið með leið til að fullnægja sinni nikótínþörf en án allra hinna skaðlegu efna sem eru í tóbaksreyknum. Auðvitað líka án óþægindanna fyrir umhverfið, sígarettureykur er gjörsamlega óþolandi í lokuðu rými fyrir þá sem ekki reykja,“ segir Ólafur.
Tvö lýðheilsusjónarmið takast á, því að á móti væri bent á að rafrettur gætu verið farvegur fyrir fikt ungmenna sem í framhaldinu færu að reykja tóbak. „Það er hætta sem er alveg ástæða til að taka mark á,“ segir Ólafur. Í frumvarpinu væri þetta hins vegar lítið metið og vegið hvort gegn öðru og engin umfjöllun væri um vísindarannsóknir á rafrettum sem liggi fyrir.