Bitcoin - nýr alþjóðlegur gjaldmiðill - er ekki til. Hann er rafrænn, óháður eftirliti og reglugerðum og viðskipti með hann nafnlaus. Framtíð viðskipta eða tæki til peningaþvættis?

Forritarar, frumkvöðlar og fjárfestar binda margir miklar vonir við bitcoin. Gjaldmiðillinn kunni að umbylta viðskiptum, jafnvel alþjóða bankaviðskiptum. Sparifjáreigendur velji að geyma fé í bitcoinum frekar en hefðbundnari gjaldmiðlum. Þá býður nafnleysi og eftirlitsleysi upp á ótölulega möguleika fyrir þá sem stunda ólögleg viðskipti - vopnasölu, eiturlyfjaviðskipti eða peningaþvætti.

Námavinnsla á netinu
Bitcoin er nýtt fyrirbæri. Það var fyrst kynnt til sögunnar árið 2009, af einhverjum sem notaði dulnefnið Satoshi Nakamoto. Hver Nakamoto er, er algerlega á huldu - karl eða kona, einstaklingur, hópur, aldur, þjóðerni...ekkert er vitað. Nakamoto birti grein um Bitcoin og tölvukóða sem varð grundvöllur að gjaldmiðlinum. Kóðinn var birtur sem opinn hugbúnaðar - þannig að hver sem væri gæti breytt honum og þróað áfram. Bitcoin eru ekki gefin út af banka, eða einstaklingum. Heldur er hægt að eignast myntir með námavinnslu, eins og ef um verðmætan málm væri að ræða. En námavinnslan fer fram á netinu. Öflugar tölvur vinna bitcoin úr kóðum á netinu. Einstaklingarnir sem reka tölvuna, fá myntina, þegar þeim tekst að vinna hana. Þannig dreifast bitcoinin um heiminn, eftir því hverjir leggja mest á sig og búa yfir öflugasta tæknibúnaðinum. Og hafa heppnina með sér. Þá fjölgar bitcoinunum smátt og smátt, eftir því sem þau eru unnin úr kóðanum.

Kaup á vörum, þjónustu eða eiturlyfjum
Hægt að kaupa Bitcoin fyrir peninga, eða skipta á þeim og einhverjum öðrum verðmætum. Lítið er um verslanir sem taka við Bitcoinum í raunheimum, enn sem komið er. En hægt er að kaupa ýmsar vörur og þjónustu fyrir Bitcoin á netinu. Að sögn New York Times, eru bitcoin fyrst og fremst notuð í ólöglegum tilgangi, þar sem erfitt sé að fylgjast með viðskiptunum. Vefsíður fyrir fjárhættuspil nota bitcoin og á vefsíðunni Silk Road er hægt að nota Bitcoin. Talið er að þar sé öðru fremur verslað með eiturlyf. Rannsókn Nicolosar Christin, rannsakanda við Carnegie Mellon háskóla, leiddi í ljós að milli fjögur og níu prósent af öllum viðskiptum á síðunni, fara fram með notkun bitcoina.

Efnahagsbrotaeftirlit bandaríska fjármálaráðuneytisins, gaf nýlega út leiðbeinandi tilmæli um hvernig standa ætti að viðskiptum með bitcoin. Þeir sem starfa í geiranum tóku þessu sem staðfestingu á lögmæti gjaldmiðilsins og auknu vægi hans. Bandarísk stjórnvöld hafa þó líka stöðvað starfsemi fyrirtækja sem höndla með bitcoin.

Um miðjan mánuðinn tóku fulltrúar yfir 1000 fyrirtækja þátt í ráðstefnu í Silicon-dal í Kaliforníu, þar sem fjallað var um framtíð Bitcoin. Í frétt LA-Times kemur fram að bitcon hafi fram til þessa helst verið notuð til að versla með vörur eins og tölvuleiki og hugverk á netinu; og til að færa til fé í ólögmætum tilgangi. Blaðið hefur eftir áhættufjárfestum að þetta kunni þó að breytast von bráðar - það sé að verða auðveldara að versla með bitcoinum. Og fjárfestar eru farnir að festa verulegar fjárhæðir í sprotafyrirtækjum sem tengjast bitcoin. Forsvarsmönnum fyrirtækisins Coinbase í Bandaríkjunum tókst að afla fimm milljóna dala - 600 milljóna króna - í fjárfestingu. Fyrirtækið þróar stafræn veski - hugbúnað sem geymir og ver bitcoin.

Miklar verðsveiflur
Menn eru mistrúaðir á framtíð og áhrif bitcoina. Og gengi gjaldmiðilsins hefur sveiflast mjög. Í árslok 2011 hrundi það úr 30 Bandaríkjadölum í tvo. Í upphafi árs kostaði eitt bitcoin tífalt það - 20 dollara. Verðmætið margfaldaðist svo aftur og aftur - fór hæst í 266 dollara í mars, áður en það hrundi niður í rúma sjötíu. Núna kostar eitt bitcoin um 120 dollara - rúmar fjórtán þúsund íslenskar krónur. Þau bitcoin sem eru í umferð, eru því metin á talsvert fé - um einn milljarð Bandaríkjadala; meira en hundrað og tuttugu milljarða króna. Notagildi peninganna gæti verið mikið. Notkuninni fylgir mikið hagræði og frelsi. Það er takmarkað magn af þeim í umferð og fyrirtæki og einstaklingar eru farin að búa til afar öflugar vélar til að stunda námavinnslu á bitcoinum. Verðhækkunin á bitcoinum gæti engu að síður verið bóla, segir New York Times í nýlegri umfjöllun. Þótt rafrænar myntir bjóði upp á nýja möguleika í löglegum og ólöglegum viðskiptum, er bitcoin ekki endilega sú mynt sem verður notuð. Sumir sérfræðingar spá því að annar rafrænn gjaldmiðill verði þróaður sem leysi bitcoin af hólmi. Þá hefur tölvuþrjótum tekist að brjótast inn á síður þar sem verslað er með bitcoin og stela þannig einhverjum fjárhæðum. Sem dregur verulega úr trúverðugleika gjaldmiðilsins, að því er fram kemur í CNN. Hugbúnaðurinn sem heldur utan um gjaldmiðilinn er þó nógu sterkur til að engum hafi tekist að brjótast inn í kerfið sjálft.

Hugsjónir eða glæpsamlegar fyrirætlanir
Af hverju voru bitcoin búin til? Eins og áður hefur komið fram, er ekki vitað hver stendur að baki gjaldmiðlinum. Látið er í veðri vaka að það hafi verið einstaklingur. Sá hinn sami sé afar frjálslyndur og andvígur miðstýrðu fjármálakerfi. Hafi með öðrum orðum gert þetta af hugsjón og áhuga fyrir nýjungum. Á móti getur vel verið að bitcoin sé hugarfóstur peningamanna sem vildu geta búið til eigin peninga ti að hagnast á útgáfunni á einhvern hátt. Jafnvel til að auðvelda glæpastarfsemi. Var bitcoin einfaldlega góð hugmynd, framkvæmd af hugsjón fyrir framtíð þar sem viðskipti væru framkvæmd rafrænt, með alþjóðlegri mynt? Eða vantaði mynt sem erfitt er að rekja, hægt að flytja hratt milli landa, þvert yfir heiminn án þess að nokkur viti af - mynt sem hentar einstaklega vel fyrir ólöglega starfsemi - vopnaviðskipti, fíkniefnasölu, mansal og peningaþvætti? Það er líklega engin leið að vita.