Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar segir alveg ótrúlegt að Landsnet, sem sér um að dreifa raforku, hafi nánast ekki fengið að byggja eina einustu línu síðan fyrirtækið var stofnað. Þetta valdi því að víða sé skortur og þetta hái uppbyggingu á svæðum eins og til dæmis Akureyri.
Hörður sagði á Morgunvaktinni á rás 1 í morgun að það væri ánægjulegt að í stjórnarsáttmálanum sé sérstaklega minnst á uppbyggingu raforkudreifikerfisins. Landsnet var stofnað á grundvelli raforkulaga árið 2003
„Að þá hefur Landsnet í raun og veru ekki fengið að byggja eina einustu línu ef frá er talið að tengja nýja virkjanir Landsvirkjunar við Búðarháls og við Þeistareyki. Og það er í rauninni alveg ótrúlegt miðað við hvað samfélagið hefur breyst og bara gamlar byggðalínur ganga úr sér. Og mörg samfélög eins og heyra má á á Akureyri eru bara farin að líða verulegan skort. Þetta er bara farið að hafa veruleg áhrif á uppbygginguna á Akureyri og á mun fleiri stöðum sem er alveg ótrúlegt í þessu landi sem við búum út af flutningskerfinu.“
Og er ekkert sem bendir til að þetta fari að lagast?
„Jú, ég bind miklar vonir við, þetta er í fyrsta sinn sem við sjáum þess sérstaklega getið í stjórnarsáttmálanum að þeir vilji leita leiða til þess að greiða fyrir þessum verkefnum. Kannski skerpa á leyfisveitingaferlinu sem er mjög þungt í vöfum.“
Hann segir að töluvert hafi verið að aukast að leggja raflínur í jörð og segir að það þurfa að leita lengra með það, tæknin sé að þróast. Það henti þó ekki alls staðar.
„Það sem er aðallega mikilvægt er að það þarf að myndast traust þannig að hagsmunaaðilar treysti Landsneti til þess að velja réttu leiðina. Það held ég að sé skortur í dag að Landsnet þarf að vinna í því að sýna það að þau séu alltaf að velja réttu leiðina út frá umhverfisáhrifum og frá kostnaði.
Og það þurfi að gefa Landsneti meira svigrúm í kostnaði því Landsnet sé undir miklum þrýstingi um að halda kostnaði niðri. Jarðstrengir séu í sumum tilvikum dýrari. Og þá þurfi Landsnet að fá heimild til þess að þegar umhverfisáhrif séu minni þ.e.a.s. að umhverfisáhrifin séu metin fjárhagslega á móti.
En leiðin er ekki rétt ef hún fer yfir landið mitt eða hreinlega bara að ég sé línuna?
„Þetta eru hagsmunir einstaklings og hagsmunir heildarinnar. En það er ljóst að samfélagslegir hagsmunir fyrir uppbyggingu landsins að þá þarf að leysa þetta og aðrar þjóðir hafa leyst þetta. En maður skilur samt alveg þau sjónarmið að fólk vilji ekki fá þetta yfir jörðina sína eða yfir sumarbústaðinn. En við þurfum bara að finna leiðir.“