Rafn Kumar og Sofia Sóley Íslandsmeistarar

13.08.2017 - 15:56
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Íslandsmótinu í tennis lauk í dag í Laugardal. Það var svo sannarlega líf og fjör í úrslitaleikjunum í einliðaleik.

Í úrslitum einliðaleiks karla mættust þeir Rafn Kumar Bonifacius og Birkir Gunnarsson. Rafn Kumar vann fyrsta settið 6-3, en annað settið var jafnara og þá skiptir hver dómur miklu máli.

Rafn Kumar vann þó annað settið eftir upphækkun 7-5 og leikinn þar með 2-0. Rafn Kumar varð þar með Íslandsmeistari utanhúss í tennis þriðja árið í röð.

Í úrslitaleik einliðaleiks kvenna mættust þær Hera Björk Brynjarsdóttir og Sofia Sóley Jónasdóttir. Þar var það Sofia sem vann leikinn í tveimur settum, 6-1 og 6-3. Sofia sem er aðeins 14 ára er því Íslandsmeistari í tennis árið 2017. Hera Björk er jafnframt ung að aldri en hún er 19 ára og ljóst að þær tvær munu berjast um titilinn aftur í framtíðinni.

Sofia Sóley sem leikur fyrir Tennisfélag Kópavógs var þarna að vinna sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil en Hera Björk varð Íslandsmeistari innanhúss fyrr á þessu ári.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Mynd með færslu
Runólfur Trausti Þórhallsson
íþróttafréttamaður