Rafmagnslaust á Austurlandi

17.05.2017 - 08:03
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Rafmagn fór af nær öllu Austurlandi upp úr klukkan sjö í morgun. Það varð rafmagnslaust frá Kirkjubæjarklaustri og þar austur af, alveg norður til Vopnafjarðar en þar er rafmagn keyrt á varaafli.

Byggðalínan fór út á stóru svæði á Suðaustur- og Austurlandi. Rafmagn fór af á Kirkjubæjarklaustri og Höfn og austureftir alveg norður til Vopnafjarðar. Þar er rafmagn keyrt á varafli en víðast hvar annars staðar er enn rafmagnslaust. Rafmagn fór einnig af á Reyðarfirði en rafmagnsleysið hafði engin áhrif á starfsemi Alcoa fjarðaáls.

Í tilkynningu á vef Landsnets segir að jarðstrengurinn Stuðlalína 1, milli Hryggstekks í Skriðdal og Stuðla í Reyðarfirði sé bilaður. Starfsmenn Rarik eru að vinna að því að koma rafmagni aftur á og sú vinna er langt komin. Það er komið rafmagn á Fáskrúðsfirði, Norðfirði, Seyðisfirði, Hornafirði og austur í Berufjörð. Það datt síðan inn á Egilsstöðum og nágrenni rétt fyrir klukkan níu. 
 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV