Seðlabanki Íslands kannar forsendur þess að gefa út rafrænt reiðufé. Seðlabankar víða um heim eru að gera slíkt hið sama til þess að bregðast við breyttum aðstæðum.
Seðlabankinn kannar nú kosti og galla þess að gefa út rafrænt reiðufé. En hvað þýðir þetta fyrir almenning? Jú, það gæti farið svo að hefðbundið reiðufé, debet- og kreditkort verði óþörf í náinni framtíð. Fólk geti einfaldlega notað símana sína, eða önnur snjalltæki, við kaup á vörum og þjónustu án milligöngu viðskiptabanka.
„Það er ekkert öðruvísi en rafrænt bankafé, sem við notum í dag í greiðslumiðlun. Nema hvað að í þessu tilfelli er Seðlabankinn útgefandi. Seðlabankar gefa út seðla og mynt, það er reiðufé, og það er án mótaðilaáhættu,“ segir Már Guðmundsson, seðlabankastjóri.
Þegar notuð eru kort og innstæður í bönkum sé alltaf mótaðilaáhætta, eða hætta á að milliliðir í viðskiptum standi ekki í skilum eða greiðslugeta minnki. Hæfni þeirra til greiðslu versni.
Væri fólk þá jafnvel að fá kort frá Seðlabankanum frekar en frá viðskiptabanka?„Það er alltof fljótt að segja til um hvaða tæknilega form þetta muni taka. Mér finnst nú líklegra að það verði eitthvað annað heldur en kort. En það mun framtíðin leiða í ljós.“
Már nefnir tvær helstu ástæður þess að byrjað er að skoða þessi mál. Annars vegar tækniþróun og hins vegar hafi notkun seðla og myntar minnkað mjög mikið. „Þá vaknar sú spurning, hvað gerist ef hún verður mjög lítil? Og svo lítil að aðilar vilja helst ekki nota hana og nota eitthvað annað,“ segir Már.
Enn séu þó stórar spurningar, bæði hagfræðilegar og heimspekilegar, sem þarf að fara yfir. „Ég undirstrika það að það hafa engar ákvarðanir verið teknar um þetta. Við erum að byrja umræðuna um þetta, hér á landi. Þetta er rætt mikið alþjóðlega. Enginn hefur tekið ákvörðun um að innleiða þetta.“
Hér má lesa Sérrit Seðlabanka Íslands. Þar er fjallað um kosti og galla rafkrónu.