Kona, sem var úthlutað karlkyni við fæðingu, undirbýr nú að sigla kajak umhverfis landið. Hún vonast til að geta sagt að leiðarlokum að ferðin hafi verið auðveldari en kynleiðréttingin.

Veiga æfir stíft þessa dagana. „Ég ætla að róa hringinn í kringum Ísland og verða fyrsta íslenska konan til að róa hringinn í kringum Ísland og vera fyrst til að róa rangsælis sem enginn hefur gert áður. Það er svolítið táknrænt. Á margan hátt hef ég verið á móti straumnum alla ævi,“ segir Veiga Grétarsdóttir kajakræðari.

Í 38 ár hét Veiga Grétar Veigar, var gift og eignaðist tvö börn en fyrir rúmum fimm árum hóf hún kynleiðréttingarferli og við tóku miklar breytingar í lífi hennar og hún segir að það hafi tekið tíma að læra að elska sjálfa sig. „En þegar maður getur verið ánægður með það sem maður sér í speglinum og sáttur við það, það skiptir rosalega miklu máli,“ segir Veiga.

Veiga ætlar að taka tvo til fjóra mánuði í ferðina og safna fyrir Píeta-samtökin sem sinna forvörnum gegn sjálfsvígum. „Ég vil geta sagt eftir ferðina að þetta hafi verið auðveldara en kynleiðréttingarferlið. Það er svolítið markmiðið hjá mér. En númer 1,2 og 3 er það bara að upplifa landið, ferðast og láta gamlan draum rætast.“