Þjóðverjar fagna væntanlegri aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þetta sagði Angela Merkel kanslari í dag eftir fund með Jóhönnu Sigurðardóttur í Berlín. Jóhanna segir sjávarútvegsmál geta ráðið úrslitum um aðild.

Eitt helsta markmiða fundarins var að kynna samningsmarkmið Íslendinga í aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Jóhanna segist hafa farið sérstaklega yfir sjávarútvegs- og landbúnaðarmálin á fundi með kanslaranum, til að sýna henni fram á sérstöðu Íslendinga. Þetta telur Jóhanna mikilvægt vegna sterkrar stöðu Þýskalands innan Evrópusambandsins.

Merkel sagði Þjóðverjar virða það mikils hvernig Ísland hafi náð tökum á fjármálakreppunni og gleðjast yfir því verði Ísland nýtt aðildarríki Evrópusambandsins.

Þær Jóhanna og Merkel ræddu einnig um samstarf við nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og um Norðurslóðir. Þar sem Þjóðverjar hafa áhuga á að koma að málum, miðla af þekkingu sinni og vera áheyrnaraðili í Norðurskautsráðinu.