Þeir sem staddir voru á Austurvelli í dag heyrðu lítið í ræðu forsætisráðherra vegna háværra mótmæla sem fór fram meðan á ræðunni stóð. Henni var sjónvarpað beint og má horfa á hana hér að ofan í heild sinni.

Ísland er fyrirmynd annarra í samfélagi þjóðanna og það er full ástæða til að líta björtum augum til framtíðar, sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson meðal annars í ræðu sinni.

Hann brýndi þjóðina til þess að vinna að meira jafnrétti, meira lýðræði og meiri framförum og gera meira af því sem gerir hana stolta af Íslandi.

„En þrátt fyrir áræði og trú á landinu þorðu líklega fáir að vona, að fáeinum áratugum seinna yrði Ísland orðið að fyrirmynd í samfélagi þjóðanna. Að velferðarmælikvarðar sýndu framúrskarandi árangur á flestum sviðum; að almennt heilbrigði hefði aukist stórkostlega, að hér væru lífslíkur einar þær bestu í veröldinni, atvinnuleysi minna en annars staðar og kynjajafnrétti hvergi meira.

Að í alþjóðlegum samanburði væri Ísland talið öruggasta land í heimi, Ísland væri í þriðja sæti á lista yfir þau lönd þar sem best þætti að búa , að jöfn réttindi allra væru betur tryggð en annars staðar og að Íslendingar væru að mati Sameinuðu þjóðanna sú þjóð sem, fremur en nánast allar aðrar þjóðir heims, hefði ástæðu til að vera hamingjusöm, sama til hvaða mælikvarða væri litið.

Stundum virðist sem fremur sé lögð áhersla á  hið neikvæða en að meta það sem vel hefur reynst og nýta þann árangur til að gera enn betur.“

Sigmundur Davíð sagði að síðustu misseri hefðu gefið þjóðinni enn frekari ástæðu til að líta björtum augum fram á veginn og að efnahagslegur jöfnuður hefði aukist hér á landi á sama tíma og aðrar þjóðir stæðu frammi fyrir verulega aukinni misskiptingu.

„Ísland stendur nú á ný upprétt í samfélagi þjóða eftir að hafa sigrast á mestu efnahagserfiðleikum síðari tíma með elju og einlægum ásetningi. Búið er að lækka skuldir heimilanna, störfum hefur fjölgað og  hafa aldrei verið fleiri, kaupmáttur eru orðinn meiri en hann hefur áður verið í landinu, verðbólga er lág og nú blasir við að hægt verði að lækka skuldir ríkisins vegna fjármagns sem renna mun í ríkissjóð til að gera afnám hafta mögulegt. Það kemur samfélaginu öllu til góða.“

Forsætisráðherra sló líka á létta strengi í ræðu sinni.

„Eins og ég hef rakið hefur Ísland spjarað sig vel frá því að landið varð sjálfstætt og fullvalda ríki. Það er ánægjulegt að sjá að Danir hafa líka spjarað sig ljómandi vel eftir aðskilnaðinn, en Danmörk fylgir raunar næst á eftir Íslandi á hamingjulista Sameinuðu þjóðanna.“