Settur hefur verið á laggirnar sex manna hópur stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins til að ræða með hvað hætti stjórnvöld geti liðkað fyrir kjarasamningum. Fyrsti fundurinn var í gær.

Stjórnvöld hafa haldið þó nokkuð marga fundi með aðilum vinnumarkaðarins þar sem rædd hafa verið afmörkuð mál. Skipun átakshóps í húsnæðismálum og skýrsla um lausnir í húsnæðismálum er afsprengi þeirra fundahalda sem farið hafa fram í ráðherrabústaðnum. Það á líka við um tillögur sem lagðar hafa verið fram um leiðir til að draga úr eða stöðva brotastarfsemi á vinnumarkaði. Fundirnir eru fjölmennir. Þar mæta ráðherrar, fulltrúar sveitarfélaganna, ríkissáttasemjari og fulltrúar stéttarfélaganna, bæði á almenna markaðinum og hinum opinbera. 

Sex manna hópur

Nú á að skipta um gír og halda fámennari fundi, þrír frá stjórnvöldum og þrír frá vinnumarkaðinum. Guðmundur Árnason ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytis, Benedikt Árnason skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu og Gissur Pétursson ráðuneytisstjóri félagsmálaráðuneytisins sitja við borðið af hálfu stjórnvalda. Drífa Snædal forseti ASÍ, Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB og Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins eru fulltrúar vinnumarkaðarins. Fyrsti fundur var í gær þar sem fyrst og fremst var rætt um stöðu opinberra fjármála eða hvert svigrúm ríkisins er. Næsti fundur verður á morgun og stefnt er að því að funda tvisvar í viku næstu tvær til þrjár vikur. 

Mörgum kröfum beint til stjórnvalda

Þetta fundarform er talið árangursríkara en stóru fundirnir sem haldnir hafa verið í ráðherrabústaðnum. Þetta er ekki samningafundur heldur samtal á milli þessara aðila og markmiðið er að finna leiðir eða lausnir á því hvernig stjórnvöld geti liðkað fyrir samningum. Félögin sem nú sitja við samningaborðið gera talsvert margar kröfur á stjórnvöld. Þær lúta að breytingum á skattkerfinu, lausnum í húsnæðismálum, vöxtum og verðtryggingu og bótum og almannatryggingum svo eitthvað sé nefnt. Þessi mál verða rædd og hugsanlega fleiri í sex manna hópnum. 

Samningaviðræður við fjóra hópa

Kjaraviðræður standa yfir á nokkrum vígstöðvum. SA er í viðræðum við félögin fjögur sem hafa vísað deilunni til sáttasemjara, 16 félög innan Starfsgreinasambandsins eru í viðræðum án atbeina sáttasemjara og sömuleiðis iðnaðarmenn. Að auki er Landssamband verslunarmanna í kjaraviðræðum við SA. Þessar viðræður eru komnar mislangt á veg. Viðmælendur Spegilsins telja ólíklegt að einn af þessum hópum gangi frá samningum ef aðrir hópar gera ekki slíkt hið sama. Allt hangi saman. Bent er á að mikilvægt sé að aðkoma stjórnvalda skýrist áður en kemur að undirritun. Það er reyndar í fyrra lagi því oftast hafa stjórnvöld komið með yfirlýsingu um aðgerðir vegna kjarasamninga í þann mund sem byrjað er að skella í vöfflur hjá sáttasemjara.