Heilsuverndaryfirvöld í Finnlandi hafa ráðlagt foreldrum að gefa börnum og unglingum upp að átján ára aldri auka d-vítamín á hverjum degi. Rannsókn bendir til þess að helmingur barna og unglinga líði af d-vítamínskorti.

Samkvæmt rannsókninni fá finnsk börn ekki nægt d-vítamín hvorki úr fæðu né með sólarljósi. Vetur í Finnlandi eru langir og dimmir líkt og á Íslandi. Því leggur finnska lýðheilsustofnunin til að börn fái 10 míkrógrömm af d-vítamíni fyrstu tvö árin og sjö of hálft míkrógramm að átján ára aldri.

Í Svíþjóð benda rannsóknir til að fjórðungur barna fái ekki nægt d-vítamín og þar vilja margir fylgja fordæmi Finna og ráðleggja daglegan d-vítamínskammt. Afleiðingar skorts á d-vítamíni geta verið alvarlegar.

Lýðheilsustöð á Íslandi ráðleggur öllum daglegan 10 míkrógramma skammt af d-vítamíni að sextugsaldri og fimmtán míkrógrömm fyrir eldra fólk.

Hólmfríður Þorgeirsdóttir, verkefnisstjóri næringar, hjá Lýðheilsustöð segir að þessar ráðleggingar séu í endurskoðun.