Ekki verður gripið til sérstakra úrræða til þess stytta biðlista í liðskiptaaðgerðir fyrr en Landlæknir skilar heilbrigðisráðherra samantekt á því hvernig biðlistaátak hefur gengið.
Heilbrigðisyfirvöld ýttu úr vör þriggja ára átaki árið 2016 til að stytta biðlista í liðskiptaaðgerðir, augasteinsaðgerðir og hjartaþræðingar. 840 milljónum hefur verið veitt í átakið á ári og um áramót ákvað ríkisstjórnin að halda áfram að ráðstafa sömu fjárhæð til átaksins.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur sætt gagnrýni fyrir að hleypa ekki einkareknum læknastofum hér á Íslandi að samningum við Sjúkratryggingar Íslands. Samkvæmt lögum mega sjúklingar fara erlendis í aðgerð ef þeir þurfa að bíða lengur en í þrjá mánuði eftir aðgerð á spítala hér og er kostnaðurinn við utanferðina greiddur úr ríkissjóði. Sjúkratryggingar Íslands gera ekki samninga við einkareknar læknastofur um aðgerðir sem krefjast innlagnar eftir aðgerðina.
„Við þurfum að greina stöðuna áður en við förum að leita að einhverjum öðrum úrræðum. Nú eru það þrír aðilar sem gera þessar aðgerðir innan þessa átaks.“ segir Svandís. „Það er Landspítali og Sjúkrahúsið á Akureyri og Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi.“
„Við þurfum að fá í raun og veru niðurstöðu frá embætti Landlæknis hvað það er sem gekk vel og hvað það er sem gengur síður. Þegar við erum búin að átta okkur á því þá getum við farið að grípa til úrræða, en ekki fyrr,“ segir Svandís.
Hún gerir ráð fyrir að hægt verði að taka ákvarðanir á næstunni, enda hefur Landlæknir fylgst vel með árangri biðlistaátaksins. Nýjasta samantekt Landlæknis er síðan í október. Þá höfðu tveir af hverjum þremur á biðlista beðið lengur en þrjá mánuði eftir að komast í liðskiptaaðgerð.
Viðtal við Svandísi má sjá í spilaranum hér að ofan.