Ráðgátan um Banksy og Bristol-gengið

27.06.2017 - 15:12
Mynd með færslu
Robert Del Naja og eitt af þekktari verkum Banksy, Samsett mynd.  Mynd: EPA/Wikimeda Commons  -  EPA/Wikimedia Commons
Persóna breska huldulistamannsins Banksy hefur lengi verið ein helsta ráðgáta myndlistarheimsins. Breski rapparinn og raftónlistarmaðurinn Goldie virðist hins vegar hafa talað af sér í viðtali á dögunum og kann að hafa komið upp um kauða, en flestir telja nú böndin berast að Robert Del Naja, forsprakka hljómsveitarinnar Massive Attack.

Í viðtalsbútnum er Goldie að tala um hræsnisfullt viðhorf listaheimsins gagnavert veggjalist og segir: „Láttu mig hafa bubblu-letur og settu það á stuttermabol og skrifaðu Banksy á hann og þá erum við góðir. Þá getum við selt hann, já við getum selt hann. Ég vil ekki móðga Robert, mér finnst hann frábær listamaður. Mér finnst hann hafa snúið listheiminum við. En ég held að ...“  en svo kemur þögn líkt og Goldie átti sig á því að hann hafi talað af sér og fer svo í aðra sálma. Flestir erlendir miðlar telja líklegast að Robert sem um er rætt sé Robert "3D" Del Naja, en hann er stofnmeðlimur og forsprakki bresku hljómsveitarinnar Massive Attack. Sú sveit átti miklum vinsældum að fagna á 10. áratugnum og voru ásamt Portishead fánaberar hinnar svokölluðu trip hop tónlistarstefnu.

Unfinished Sympathy af Blue Lines, fyrstu breiðskífu Massive Attack, er eitt vinsælasta lag sveitarinnar.

Robert þessi er vinur Goldie og einnig myndlistarmaður, en báðir koma þeir frá Bristol og voru virkir í graffiti-senu borgarinnar á öndverðum 9. áratugnum, þar gekk Robert undir nafninu 3D og notaðist mikið við stensla. Banksy er einnig frá Bristol en stenslaverk hans sem oft eru þrungin pólitískum skilaboðum, dökkum húmor og andstöðu við yfirvald hafa gert hann að alþjóðlegri huldustjörnu myndlistarheimsins. Fyrstu verk Banksy sáustu á veggjum í Bristol upp úr 1990 – sem er einmitt á svipuðum tíma og Robert Del Naja var að stofna Massive Attack og minnka við sig í veggjakroti. Banksy vakti hins vegar fyrst alþjóðlega athygli fyrir veggmyndina The Mild, Mild West árið 1999. 

Mynd með færslu
 Mynd: KylaBorg  -  Flickr

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem nafn del Naja hefur verið tengt við Banksy en skoski blaðamaðurinn Craig Williams leiddi að því líkur í umfangsmikilli grein á síðasta ári – sem hann byggði einna helst á því að ný Banksy-verk virtust skjóta upp kollinum í sömu borgum og á svipuðum tímum og Massive Attack héldu þar tónleika. Í greininni kastar Williams fram þeirri kenningu að Banksy sé ekki huldumaður, heldur hulduher, hópur fólks undir listrænni yfirstjórn del Naja. Þá telja ýmsir fagurfræðileg líkindi með myndlist del Naja, sem hefur meðal annars hannað öll umslög Massive Attack, og veggverkum Banksy.

epa05950992 A close-up view of the Brexit-inspired mural by Banksy, showing a worker chipping away at a star on a EU flag, that has been painted on the side of a building in Dover, Britain, 08 May 2017. The artwork emerged overnight under Dover Castle
 Mynd: EPA
Verk eftir Banksy sem var afhjúpað 8. maí, sem fjallar að öllum líkindum um Brexit.

„Það væri góð saga, en hún er því miður ekki sönn,“ segir Del Naja en fullyrðir að þeir Banksy séu góður vinir og sá síðarnefndi hafi oft komið á tónleika með Massive Attack víða um heim, sem gæti skýrt athuganirnar í grein Williams. Goldie gaf í skyn á twitter að málið væri einhvers konar vitleysa og segir að hann og del Naja séu skellihlægjandi yfir vitleysunni. Banksy hefur viðurkennt að del Naja hafi haft mikil áhrif á sig sem graffiti-listamann og hann skrifar til dæmis formálann að bókinni 3D and the Art of Massive Attack. Del Naja ræðir hins vegar um Banksy í hinni stórgóðu heimildarmynd Exit Through The Gift Shop.

 

Banksy og Robert del Naja ræða hvorn annan í heimildarmyndinni Exit Through The Gift Shop.

Fyrir um tíu árum hafði blaðið Daily Mail leitt að því líkur að Banksy væri fyrrum listneminn Robin Gunningham. Sú kenning fékk byr undir báða vængi á síðasta ári þegar vísindamenn við Queen Mary háskólann í Lundúnum beittu tölvutækni og líkindareikningi þar sem borin voru saman staðsetning verka Banksy við ferðir Gunningham. Í viðtalsbútnum við Goldie liggur honum nokkuð óskýr rómur og Robert gæti verið Rob, sem gæti verið stytting á Robin.

Goldie var mjög vinsæll um miðjan 10. áratuginn og frumkvöðull í Jungle og Drum & Bass tónlistarstefnunum. Hann átti einnig í ástarsambandi við Björk um tíma.

Þess má að lokum til gamans geta að Massive Attack hafa spilað tvisvar á Íslandi, árið 1997 í Kaplakrika og svo árið 2014 á fyrstu Secret Solstice hátíðinni. Árið 2014 voru einmitt uppgötvuð verk á tveimur stöðum á Íslandi sem talin voru eftir Banksy en þau reyndust við nánari eftirgrennslan vera eftir norskan götulistamann. Eina Banksy verkið sem vitað er um á Íslandi var sent sem gjöf frá listamanninum til Jóns Gnarr í borgarstjóratíð hans. 

Mynd með færslu
 Mynd: Claudia Regina  -  flickr.com/claudiaregina_cc
Þessi ísbjörn með innkaupakerru hefur verið spreyjaður á brúarstólpa við Jökulsárlón. Margir töldu hann vera höfundarverk Banksy en svo reyndist ekki vera.
Jon Gnarr, Buergermeister von Reykjavik (Island), sitzt am Dienstag (18.10.11) in seinem Buero im Rathaus von Reykjavik bei einem Treffen mit Christopher Lauer, dem Abgeordneten der Piratenpartei im Berliner Abgeordnetenhaus, vor einem Bild des anonymen
 Mynd: dapd
Jón Gnarr ásamt eina Banksy verkinu sem vitað er um á Íslandi.