Á fimmta þúsund bílar fara um gatnamót Bústaðavegar og Flugvallarvegar á einni klukkustund bæði á morgnana og síðdegis, með tilheyrandi umferðarteppu. Þorsteinn R. Hermannsson, samgöngustjóri Reykjavíkurborgar, segir að ráðast verði í aðgerðir til að leysa vandann.
Það er kunnara en frá þurfi að segja að gatnamót Bústaðavegar og Flugvallarvegar anna illa þeirri umferð sem fer þar um á helstu álagstímum. Á dæmigerðum klukkutíma að morgni á virkum degi fara liðlega þúsund bílar yfir gatnamótin úr norðri og tæplega tvö þúsund úr suðri. Þar af beygja rúmlega 700 inn á Flugvallarveg og er sennilegt að stór hluti þeirra fari að Háskólanum í Reykjavík. Alls fara nærri 4.300 bílar um gatnamótin að meðaltali þessa klukkustund á virkum degi. Síðdegis skellur annar álagstími á þegar nærri tvö þúsund bílar fara frá miðborginni yfir gatnamótin á klukkutíma, og tæplega þúsund í átt að henni. Nærri 800 bílum er á sama tíma ekið úr Vatnsmýrinni að gatnamótunum og megnið af þeim bætist í umferðina frá miðborginni. Alls eru þetta nærri 4.400 bílar á einni klukkustund.
„Þetta er mikill umferðarþungi. Það er alveg ljóst. Við erum meðvituð um að þetta er mikil umferð sem fer hérna um,“ segir Þorsteinn. Hann segir að í fyrra hafi vinna hafist við að leita leiða til að leysa þennan vanda. „Og okkur sýnist að niðurstaðan verði sú að það þurfi að gera breytingar á gatnamótum Bústaðavegar og Kringlumýrarbrautar til þess að liðka fyrir umferð þar og það muni þá leiða til þess að það verði auðveldara að fara hér um.
Hvenær á að ráðast í þetta?
Vonandi á næsta ári. Við erum að undirbúa þetta. En það er að sjálfsögðu háð fjármögnun bæði ríkis og sveitarfélaga hvort það gengur eftir.
En þið teljið að þetta myndi létta verulega á álaginu hérna?
Ég myndi ekki segja að það létti verulega á en það hefur töluverð áhrif og fólk á að finna vel fyrir því ef þetta kemur til framkvæmda, miðað við hermilíkönin sem við erum með.“
Þá segir Þorsteinn að enn sé til skoðunar að ráðast í stærri framkvæmdir, eins og göng í gegnum Öskjuhlíð eða Miklubraut í stokk, enda séu báðar framkvæmdirnar í aðalskipulagi til ársins 2030.
Hvað með að efla almenningssamgöngur að Háskólanum í Reykjavík, myndi það ekki hjálpa mikið til?
„Að sjálfsögðu. Það er vandamálið, það eru alltof margir bílar. Það er það sem er svo erfitt að glíma við þannig að við viljum flytja fleiri með öðrum ferðamáta. Brú yfir Fossvog sem er á teikniborðinu fyrir almenningssamgöngur ásamt sérreinum fyrir almenningssamgöngur frá Háskólanum í Reykjavík upp á Hringbraut myndi breyta mjög miklu. Það er það sem við erum að skoða að sjálfsögðu líka, mjög sterkt,“ segir Þorsteinn.
Þessi leið er auðvitað bara ein helstu leiða til og frá miðborginni. Til samanburðar má sjá gatnamót Sæbrautar og Skeiðarvogar á sama tíma að morgni. Þá fara nærri tvö þúsund bílar yfir gatnamótin í átt að miðborginni og um 500 er beygt inn á Skeiðarvog. Á sama tíma fara hátt í 700 bílar yfir gatnamótin frá miðborginni, en alls fara nærri 3.700 bílar þarna um á þessu tímabili. Á fimmta tímanum síðdegis fara hátt í tvö þúsund bílar frá miðborginni yfir gatnamótin og bætast í umferðina sem kemur af Miklubraut aðeins sunnar og liðlega þúsund á móti. Nokkur hundruð bílar fara síðan inn á Skeiðarvog, en alls fara rúmlega 4.400 bílar um gatnamótin þessa klukkustund.