Punktar Laxness stækkaðir þúsundfalt

10.05.2017 - 16:05
Myndlistargagnrýnandi Víðsjár, Sigmann Þórðarson, brá sér í Hafnarfjörðinn og barði þar konkretljóð augum á sýningunni Bókstaflega í Hafnarborg. Hann var hrifinn af þeim verkum sem þar eru til sýnis, en fannst vanta nokkrar vörður á leiðinni frá árinu 1957 til samtímans.

Sigmann Þórðarson skrifar:

Í Hafnarborg í Hafnarfirði stendur nú yfir sýningin Bókstaflega þar sem kastljósinu er beint að fyrirbærinu ,,konkretljóð” og eru sýnendur margir af helstu listamönnum landsins í seinni tíð og því er forvitnilegt að fá að sjá hvað þar ber fyrir augum.

En áður en lengra er haldið er kannski ekki úr vegi að fá svar við spurningunni sem líklega einhverjir hlustendur spyrja sig að núna: ,,Hvað er konkretljóð”? Á einfaldaðan hátt mætti segja að í konkretljóðum sé það hin sjónræna uppbygging textans frekar en innihald hans sem skiptir mestu máli við að koma áhrifum ljóðsins til skila við lesendur þess.

Leikur að ritmáli

Myndskáldin leika sér að tungumálinu eða öllu heldur ritmálinu, sjálfum stöfunum. Þessum táknum sem eiga að miðla merkingu til lesandans eftir því boðskiptakerfi sem við lærum og göngumst við frá barnsaldri. Konkretljóð eiga sér einhverjar rætur í framúrstefnulegan þankagang listamanna í upphafi síðustu aldar en verða þó ekki formlega til fyrr en á sjötta áratug þeirrar aldar þegar skáld fara að yrkja undir merkjum þeirra og fyrstu konkretljóðabækurnar og -tímaritin koma út.

Listamaðurinn Dieter Roth tengdist stofnun þessarar nýju stefnu og flutti áhrif hennar með sér til landsins þegar hann fluttist hingað fyrst árið 1957. Sýningin hefur enda undirtitilinn; Konkretljóð á Íslandi frá 1957 til samtímans og er það bein vísun í þau tímamót sem verða þegar Dieter flytur hingað til lands. Verkin eftir Dieter á sýningunni eru því miður ekki mörg en sýna grafískar stúdíur hans með texta og umbrot, svona í anda fyrstu konkretljóðanna.

Dieter Roth var mikill frumkvöðull í konkretljóðum á Íslandi, og ártalið sem hann fluttist til Íslands markar upphaf tímabilsins sem sýningin spannar.

Konkretljóðin áttu svo eftir að þróast töluvert með tímanum eins og rakið er í sýningarskránni. Þegar hugmyndalistin hóf innreið sína hér á landi í upphafi áttunda áratugarins einkenndust verkin af mikilli leikgleði, kaldhæðni eða jafnvel hinni alíslensku ,,hnyttni”.

Verk Kristjáns Guðmundssonar falla auðveldlega undir þá skilgreiningu. Í einu verkanna á sýningunni hefur hann stækkað punkta úr ljóðum Halldórs Laxness þúsundfalt og sýnir þá hvern fyrir sig sem sjálfstætt verk. Punktar geta táknað mismunandi hluti í rituðu máli, hvort sem það er til að tákna lok málsgreinar eða sem punktur yfir ,,i-ið”. Þegar þeir hafa hins vegar verið stækkaðir svona og teknir úr öllu samhengi missa þeir merkingu sína og við getum í raun bara velt fyrir okkur útliti þeirra og lögun en þeir virðast allir hafa sína sérstæðu, nánast eins og snjókornin.

Allt er í heiminum hverfullt

Magnús Pálsson á nokkur verk á sýningunni sem öll eru ólík að gerð enda halda sköpunarkrafti hans engin bönd. Í einu verkanna vinnur hann með orð sem uppröðun tákna sem hafa enga merkingu fyrr en þeim er raðað saman. Með því að steypa orðin í gips bendir hann okkur líka á það hvernig merkingin getur breyst eftir sjónarhorni þess sem tekur við henni. Allt er í heiminum hverfullt.

Á öðrum stað í salnum er annars konar og aðeins nýlegra verk eftir Magnús, The Offs. Play in two acts, þar sem Magnús hefur klippt sundur og límt saman aftur handritatexta eftir eigin höfði en þó eftir einhverjum fyrirfram ákveðnum reglum svo hann fái ekki öllu ráðið um framvinduna. Verkið var flutt af leikhópi og hljóðritað en er hérna sýnt sem konkretljóð út frá handritinu sjálfu sem er jú algjör klippimynd.

Mynd með færslu
Guðbergur Bergsson. 15 bóklistaverk, 1969–72.  Mynd: Guðbergur Bergsson  -  Hafnarborg

Guðjón Ketilsson á verk sem samanstendur af stærðarinnar stimpli með áletruninni „jæja“, sem hefur svo verið þrykkt í sand með því að rúlla stimplinum eftir honum. Orðið „jæja“ er órætt fyrirbæri því samkvæmt orðabókarskilgreiningu getur það þýtt bæði „allt” og „ekkert”. Merking allra annarra orða rúmast svo þar á milli og því getur þetta sakleysislega orð á vissan hátt sagt allt það sem við höfum að segja og kannski gott betur.

Birgir Andrésson á verkið Villur – Leiðréttingar sem sýnir íslenska stafrófið en þó með tveimur „leiðréttingum” eins og hann kallar það. Hann hefur skipt út séríslensku stöfunum „ð” og „þ” og sett í þeirra stað tákn sem unnin eru upp úr grunnmyndum torfbæja. „Villurnar” í verkinu eru í raun bara sjáanlegar þeim sem kunna íslenska stafrófið en með þessum hætti hefur Birgir reynt að laga stafrófið að augum hins ókunnuga.

Ljóðin fljóta um blaðsíður kamelljónsins

Jón Laxdal fær líka að fljóta með á sýningunni með verk úr safneign Hafnarborgar. Verkið sem er án titills er eitt af klippimyndum hans þar sem hann hefur eiginlega klippt í burtu alla merkingu þess texta sem myndin er byggð úr svo eftir standa nokkur fátækleg form, hálf berskjölduð í tóminu.

Kamelljónið Ásta Fanney Sigurðardóttir á tvö verk á sýningunni. Annað heitir Sjö sjóskeljar og er sjö mynda sería þar sem ljóðatextinn flýtur um blaðsíðurnar í tvístruðum þyrpingum. Í sýningarskránni er vitnað í skáldið Hugo Ball sem fyrir einni öld síðan í Stefnuyfirlýsingu Dadaismans, sagðist ekki vilja sjá orð sem aðrir hefðu fundið upp heldur sína eigin fásinnu og sérhljóða og samhljóða sem hæfðu henni. Þessi sömu orð gætu hæglega verið höfð eftir Ástu Fanneyju því leikur hennar með tungumálið er svo framúrstefnulegur en jafnframt svo undur fallegur og dáleiðandi.

Mynd með færslu
Kristinn E. Hrafnsson. Tímamót: Hér eftir – Hingað til, 2011  Mynd: Kristinn E. Hrafnsson  -  Hafnarborg

Í áðurnefndri sýningarskrá kemur fram að straumur konkretljóðanna hafi runnið í ótalmarga farvegi og því væri áhugavert að skoða hvernig listamenn samtímans hafi kannað þanþol formsins í gegnum breytta tækni og sýn á framtíðina. Það væri vissulega áhugavert en fyrir utan eitt vídeóljóð eru nýjustu verkin á sýningunni unnin með ritvél, blýanti og með því að klippa í gamlar bækur. Verkin sjálf eru alls ekki slæm en þau svara engan vegin þessum vangaveltum sýningarstjórans Vigdísar Rúnar Jónsdóttur.

Vigdís Rún hefur síðan talað um sýninguna sem kortlagningu á konkretljóðagerð á Íslandi. Vandamálið er hins vegar það að vegalengdin frá verkum Dieter Roth frá sjötta áratug síðustu aldar til nýlegs vídeóljóðs Ástu Fanneyjar Sigurðardóttur er það löng að vörðurnar á milli þeirra þurfa að vera fleiri ef fólki er ætlað að rata eftir þessu korti. Sýningin nær ekki að vera nógu yfirgripsmikil til að segja okkur alla söguna af konkretljóðagerð á Íslandi frá árinu 1957, til þess er bara ekki nógu margt að sjá.

Kastljós að afskekktum kima listarinnar

Þau verk sem þó eru á sýningunni eru hins vegar öll þess virði að berja augum og því má hæglega mæla með því að fólk leggi leið sína í Hafnarfjörðinn á þessa sýningu. Sýningu sem væri kannski best lýst sem ágætri tilraun til að beina kastljósinu að hinum afskekkta kima listarinnar sem konkretljóð eru orðin og draga þau þannig aftur inn í umræðuna. Hvort þau eigi hins vegar eitthvert erindi þangað ennþá skal ósagt látið.

 

Mynd með færslu
Halla Þórlaug Óskarsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Víðsjá
Þessi þáttur er í hlaðvarpi