Íslensk hiphop-tónlist á sína eigin rödd og er hluti af þjóðarmenningunni. Líkt og í bandarískri rapptónlist má greina í henni andóf og uppgjör við ráðandi menningu og kynslóðir, segir Helga Þórey Jónsdóttir, doktorsnemi í menningarfræðum.

Helga Þórey flytur erindið „Púllað upp að Prikinu“: Um uppgjör og andóf í fagurfræði aldamótakynslóðarinnar á hugvísindaþingi á morgun í Háskóla Íslands. „Ég hef alltaf verið að skoða íslensku hip hopsenuna,“ segir Helga Þórey í samtali við Lestina á Rás 1, en hún fylgdist vel með fyrri íslensku rappbylgjunni. „Ég bjó út í New York en flutti heim árið 2000, þá var bara komið rapp! Jú það hafði verið Subterranian og Quarashi en svo komu Rottweilerhundar og það var byrjað að rappa á íslensku. Það var rosa mikil stemmning í Reykjavík og ég hellti mér í þetta og fór á alla tónleika,“ segir Helga sem á svipuðum tíma fór að vinna við fjölmiðla og skrifaði þá oft um hip hop.

Margt hefur breyst í rappinu frá fyrstu bylgjunni. Senan lagðist í dvala í fjölmörg ár en hún lifnaði aftur við fyrir um fimm árum og hefur verið allsráðandi í íslenskri tónlist síðan. „Þetta er okkur dægurtónlist. Auðvitað hafa áherslurnar breyst pínu, það var kannski meira áberandi pólitík í gamla daga. En þetta er fín sena og gaman að sjá hvernig hún þróast,“ segir Helga Þórey og bætir við að rappsenan hafi sína séríslensku rödd. „Hún er á íslensku. Það skiptir náttúrulega rosalega miklu máli. Það sem við ræðum um á íslensku verður alltaf okkar allra. Hip hop-hefðin er hversdagssögur, kannski öðruvísi en bandarískar, en oft „potent“, persónulegar og pólitískar.“

Í námi sínu hefur Helga Þórey oft rannsakað hvernig andóf birtist í poppmenningu og þróast í gegnum söguna. „Það er ekkert rosalega mikið andóf lengur, til dæmis að strákar séu með sítt hár, en þótti alveg rosalegt fyrir 50 árum. Þessi áratugur og jafnvel sá síðasti, það sem við erum að gera sem menning er að við erum í stanslausu uppgjöri við 20 öldina. Reyna að moka okkur út úr gróðurhúsaáhrifum og öllu þessu plasti, menningu sem komst á í gegnum kapítalisma og fjölmiðlun.“

Helga segir að ein tegund af menningarlegu andófi sé þegar fólk afbakar og leikur sér með tungumálið, sem mikið er stundað í íslensku rappi dagsins í dag. Til dæmis sletti Alvia Islandia mikið í sinni textagerð en þó á mjög skapandi hátt. „Hún lætur merkinguna og rytmann ráða frekar en að vera að velta fyrir sér stuðlum og höfuðstöfum eða hvort orðin eru á íslensku eða ensku,“ segir Helga. Þá nefnir hún lagið „Ísvélin“ með Joey Christ en titillinn á erindi hennar, Púllað upp að Prikinu, er tilvitnun í það. „Ég var alin upp við að hamrað var á því að maður mætti ekki segja „mér langar“. En það er bara virt að vettugi, og leikurinn að tungumálinu er meira virði en að segja hlutina rétt. Mér finnst það virka og gaman að sjá íslenskunni storkað á þennan hátt. Mér finnst að listamenn megi leika sér með tungumálið, það er hluti af þeirra frelsi og fyrir okkur til að hafa gaman að.

Anna Gyða Sigurgísladóttir ræddi við Helgu Þóreyju Jónsdóttur í Lestinni. Helga heldur erindið „Púllað upp að Prikinu“: Um uppgjör og andóf í fagurfræði aldamótakynslóðarinnar á hugvísindaþingi í Háskóla Íslands klukkan 15:00 á laugardag.