Guðmundar- og Geirfinnsmálið er ekki bara sakamál. Það hefur verið pólitískt umfjöllunar- og deiluefni áratugum saman og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, sem í dag bað málsaðila afsökunar, er síður en svo fyrsti ráðherrann til að láta til sín taka í málinu með einum eða öðrum hætti.

Fljótlega eftir hin dularfullu mannshvörf í janúar og nóvember 1974 – sem síðar voru þekkt undir heitinu Guðmundar- og Geirfinnsmálið – fór að gæta pólitísks þrýstings á að lögregla leysti sem fyrst úr málunum. Það var aftur á móti í ársbyrjun 1976 sem málið færðist af alvöru og þunga inn á hið pólitíska svið.

„Alvarlegar ásakanir á hendur dómsmálaráðuneytinu“

Fjórir menn höfðu verið hnepptir í varðhald, grunaðir um að vera viðriðnir hvarf Geirfinns. Fjórmenningarnir, Magnús Leopoldsson, Sigurbjörn Eiríksson, Einar Bollason og Valdimar Olsen, voru tengdir skemmtistaðnum Klúbbnum. Klúbbsmenn höfðu verið bendlaðir við áfengissmygl og hvarf Geirfinns sett í samhengi við það.

30. janúar 1976 skrifaði Vilmundur Gylfason, síðar þingmaður og ráðherra, grein í Vísi sem vitnað var til á forsíðu undir fyrirsögninni: „Alvarlegar ásakanir á hendur dómsmálaráðuneytinu – Sakað um að hefta rannsókn í Geirfinnsmálinu.“

Efnislega snerust ásakanirnar um að boð hefðu komið úr ráðuneytinu, áður en Klúbbsmenn voru úrskurðaðir í varðhald, um að lögregla skyldi láta þá í friði. Inn í þetta var blandað tengslum Klúbbsins við Framsóknarflokkinn, sem skemmtistaðurinn leigði af húsnæði.

Ólafur svarar fyrir sig

Málið var rætt á þingi þar sem Ólafur Jóhannesson, dómsmálaráðherra Framsóknarflokksins, bar af sér sakir:

„Annars vegar er ásökun um það að dómsmálaráðuneytið hafi fellt niður lokun veitingahússins Klúbbsins. Hins vegar er ásökun um það að dómsmálaráðherra hafi hylmað yfir og komið í veg fyrir rannsókn á mannshvarfi og jafnvel látið liggja að því á milli línanna að dómsmálaráðherra hafi með því verið að reyna að hylma yfir morð!“

Ólafur biðlaði til heimildarmanns Vísis að gefa sig fram og ýjaði raunar að því að hann vissi sjálfur hver hann væri.

„Og það væri ekkert slæmt að leiða þann kauða fram í birtuna. Hver veit nema hann hafi eitthvað á samviskunni.“

„Mafía er hún og mafía skal hún heita“

Ólafur hafði í útvarpsviðtali kvöldið áður talað um Vísismafíu sem stæði að baki skrifunum. Þorsteinn Pálsson, ritstjóri Vísis og síðar eftirmaður Ólafs á stóli dómsmálaráðherra, ritaði yfirlýsingu á forsíðu blaðsins og gaf Ólafi færi á að draga orð sín til baka en verða ella stefnt. Ólafur dró hins vegar hvergi úr.

„Kannast menn við svona vinnubrögð? Ja, það skyldi aldrei vera að mafían viðhefði svona vinnubrögð nokkuð víða – sendi hótanir í blöðum eða hótunarbréf ef á þarf að halda. Mafía er hún og mafía skal hún heita.“

Klúbbsmönnum sleppt

Vísismenn stóðu við orð sín og stefndu dómsmálaráðherra og svo fór að þessi fleygu ummæli Ólafs voru dæmd ómerk. Svo fór einnig að Klúbbsmönnunum fjórum var sleppt úr haldi um vorið – þeir höfðu þá setið saklausir í gæsluvarðhaldi í um 100 daga og þrír sakborninganna í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu voru að lokum dæmdir fyrir að bera á þá rangar sakir.

Sá angi málsins er sumpart enn óútkljáður. Hann var ekki tekinn upp á ný með manndrápsdómunum og Erla Bolladóttir, sem aðeins fékk dóm fyrir rangar sakargiftir, berst enn fyrir því að hennar hlutur verði réttur.

Spáði sjálfum sér góðum eftirmælum

Ári eftir ummælin fleygu, og í þann mund sem lögregla var að ljúka rannsókn sinni á Guðmundar- og Geirfinnsmálinu, minntist Ólafur Jóhannesson aftur á það í pontu Alþingis. „Það var á sínum tíma að ég var sakaður um yfirhylmingu með meintum glæpamönnum í því máli,“ sagði Ólafur.

„En ég hugsa nú að þegar sagan verður könnuð og það rakið, að ég átti minn þátt í því að fá þýskan sakamálasérfræðing hingað til þess að kanna það mál, þá verði dómur sögunnar á aðra lund um það atriði heldur en sumir menn vildu vera láta,“ hélt hann áfram og vísaði þar til Þjóðverjans Karls Schütz sem hingað kom til að hnýta saman lausa enda í frásögninni af hvarfi mannanna og vefja úr þeim trúverðuga frásögn. Nýjustu atburðir benda til að þessi spádómur Ólafs Jóhannessonar hafi ekki ræst.

Hæstiréttur vildi ekki taka upp eigið mál

Eftir dóm Hæstaréttar 1980 fór lítið fyrir málinu í pólitískri umræðu, allt fram á miðjan tíunda áratuginn. Þá freistaði Sævar Ciesielski þess að fá mál sitt tekið upp að nýju – játningar hans og annarra sakborninga hefðu verið falskar og ekkert á þeim byggjandi.

Á þessum árum tók Hæstiréttur sjálfur afstöðu til endurupptöku og rétturinn reyndist ófús til að fara aftur í saumana á málinu og hafnaði beiðninni.

Hundahreinsun og dómsmorð

Rúmu ári síðar lét Davíð Oddsson forsætisráðherra orð falla á þingi sem eftir var tekið:

„Mér voru það mikil vonbrigði að Hæstiréttur skyldi ekki geta, eða séð sig geta, haft lagaskilyrði til að taka Geirfinnsmálið upp á nýjan leik. Ég fyrir mitt leyti hef kynnt mér þetta mál rækilega í gegnum tíðina og tel að þar hafi mönnum orðið á í messu í stórkostlegum mæli á nánast öllum stigum málsins,“ sagði Davíð.

„Þó að það hefði verið sársaukafullt – mjög – fyrir íslenska dómstólakerfið, þá hefði það verið gott og nauðsynlegt, hundahreinsun fyrir okkur ef má nota svo óvirðulegt orð, að fara í gegnum það mál allt og með hvaða hætti það var unnið,“ hélt forsætisráðherrann áfram.

„Það var ekki aðeins eitt dómsmorð framið á allri þessari vegferð, þau voru mörg dómsmorðin sem framin voru á þessari vegferð allri og það er mjög erfitt fyrir okkur að búa við það.“

Svavar talaði fyrir réttarfarsdómstóli

Svona höfðu æðstu ráðamenn þjóðarinnar ekki talað um málið fyrr. Skömmu áður hafði heimildarmyndin Aðför að lögum verið sýnd og vakið talsverða athygli – í henni var fjallað um misbresti á rannsókn málsins tuttugu árum áður.

Davíð lét ummælin falla í þingumræðu um frumvarp Svavars Gestssonar, þingmanns Alþýðubandalagsins, um stofnun svokallaðs réttarfarsdómstóls, sem ætti meðal annars að taka afstöðu til endurupptöku og hlífa dómstólum þar með við að fella úrskurði í eigin málum. Svavar vísaði sérstaklega til máls Sævars í greinargerð sinni með frumvarpinu.

Endurupptökunefnd sett á fót

Réttarfarsdómstóllinn komst aldrei á laggirnar en fimmtán árum síðar tók til starfa endurupptökunefnd með sama tilgang og þess var sérstaklega gætt við lagasetninguna um þá nefnd að hún gæti tekið til meðferðar mál sem Hæstiréttur hafði þegar hafnað að taka upp á ný.

Sú nefnd átti svo eftir fallast á endurupptöku Guðmundar- og Geirfinnsmálsins, að fengnum nýjum sönnunargögnum. Nýju sönnunargögnin voru dagbækur sem Tryggvi Rúnar Leifsson hafði haldið í Síðumúlafangelsi þar sem hann lýsti harðræði og hvernig játningar voru þvingaðar fram.

Gísli Guðjónsson réttarsálfræðingur steig fram og sagði þetta kalla á að málin yrðu tekin upp að nýju. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra skipaði í kjölfarið starfshóp til að meta málið, sem varð til þess að málin fóru til endurupptökunefndar og svo aftur til Hæstaréttar.

Lokið en þó ekki

Þótt málinu sé lokið í einhverjum skilningi með sýknudómi Hæstaréttar í gær lifir það samt enn – næst ætla stjórnvöld að reyna að ná sáttum við sakborninga og aðstandendur þeirra, kannski með bótagreiðslum og Erla Bolladóttir ætlar aftur að reyna að fá sinn dóm fyrir rangar sakargiftir tekinn upp. Og enn eru þeir ófundnir, Guðmundur Einarsson og Geirfinnur Einarsson.