Landsbókasafni Íslands var á dögunum afhent til varðveislu hljómplötusafn Sigurjóns Samúelssonar, sjómanns og bónda á Hrafnabjörgum við Ísafjarðardjúp. Um er að ræða sjö þúsund plötur, safn sem inniheldur marga dýrgripi, meðal annars átti Sigurjón allar söngplötur Einars Kristjánssonar og Stefáns Íslandi, og báðar hljómplötur Einars Hjaltested sem teknar voru upp í New York árið 1916. Starfsmenn Landsbókasafns segja mikinn feng í því að fá hljómplötur Sigurjóns í hús.
Sigurjón Samúelsson fæddist þann 6. febrúar árið 1936. Hann stundaði sjómennsku um nokkurra ára skeið á vertíðum, aðallega frá Grindavík, lengst af sem annar vélstjóri á vélbátnum Guðjóni Einarssyni. Í kringum árið 1950, þá á fermingaraldri, byrjaði Sigurjón að safna hljómplötum, með sönglögum og harmóníkutónlist, sem sumar voru frá því skömmu eftir aldamót og að sjálfsögðu 78 snúninga. Fyrstu hljómplötuna eignaðast Sigurjón tíu ára gamall, plötu með Gunnari Óskarssyni, barnastjörnu þess tíma. Í plötusafninu eru eins og áður segir um það bil sjö þúsund hljómplötur, flestar heillegar og mjög vel með farnar, þeirra á meðal er til dæmis fyrsta harmóníkuplatan sem tekin var upp á Íslandi, frá árinu 1933. Plöturnar keypti Sigurjón á fornsölum í Reykjavík, meðal annars við Grettisgötuna, í kjallara Fálkans, og víðar.
Allir þekktustu söngvararnir
„Þetta er mjög verðmætt safn,“ segir Ólafur J. Engilbertsson sýningarstjóri sýningar sem opnuð var í Þjóðarbókhlöðunni á afmælisdegi Sigurjóns, þann 6. febrúar. Sigurjón átti plötur með öllum þekktustu söngvurum landsins á þeim tíma, Eggerti Stefánssyni, Stefáni Íslandi, Hreini Pálssyni og Sigurði Skagfield, svo einhverjir séu nefndir, en sá síðastnefndi var í miklu uppáhaldi hjá Sigurjóni. Hann var ekki aðeins plötusafnari heldur líka útgefandi, safnaði lögum af 78 snúninga hljómplötum og færði yfir á geisladiska. Hann gaf út í takmörkuðu upplagi, og lagði að sögn Ólafs mikinn metnað í útgáfuna, safnaði meðal annars myndum og skrifaði texta um listamennina. „Hann færði yfir á stafrænt form og gaf út tuttugu og sjö geisladiska, og tók saman sögulegan fróðleik um söngvarana sem hann gaf út,“ segir Ólafur.
Safnið aðgengilegt almenningi
Í Landsbókasafninu er nú unnið að því að koma hljómplötusafni Sigurjóns Samúelssonar yfir á stafrænt form. „Við höfum verið að afrita meðal annars 78 snúninga hljómplötur,“ segir Bryndís Vilbergsdóttir, sérfræðingur hjá Hljóð- og myndsafni safnsins, „og eru komnar yfir þrjú hundruð inn í hljóðsafnið, sem er aðgengilegt, hljóðsafn.is, og þar er hægt að hlusta á allt sem komið er úr höfundarrétti í heild sinni, en hljóðbrot af öðru.“ Bryndís segir að það sé mjög mikill fengur í því að fá plötur Sigurjóns í safnið, því það hafi að geyma margar plötur sem safnið vantaði, plötur sem síðan verður hægt að afrita og gera aðgengilegar fyrir almenning.
Þeytti skífum við Djúp
Sigurjón Samúelsson vann meðal annars fyrir sér sem diskótekari á dansleikjum við Ísafjarðardjúp, og víðar, og spilaði þá gjarnan blandaða tónlist fyrir alla aldurshópa. Hann átti jafnan nýjustu plöturnar með danstónlist samtímans, og lék bæði gamla dansa og nýja. „Hann fór líklega um '78 að vera plötusnúður,“ segir Ólafur, „með rafdrifinn fón, þá var hann með í einum kassa nýjustu dans- og dægurlögin, hittara, en í hinum kassanum voru gömlu dansarnir.“
Fágæt hljómflutningstæki
Bjarki Sveinbjörnsson og Jón Hrólfur Sigurjónsson tóku fróðlegt viðtal við Sigurjón Samúelsson á Hrafnabjörgum árið 2011. Þar ræðir hann lífshlaup sitt, tónlistarástríðuna og plötusöfnunina. Viðtalið má heyra á sýningunni sem opnuð var á dögunum í Landsbókasafninu. Auk hljómplatnanna átti Sigurjón úrval hljómflutningstækja, sum þeirra má sjá á sýningunni, allt frá gömlum grammófónum upp í nútíma græjur, elsti grammófónninn í safni hans er frá árinu 1914, svo kallaður His Master's Voice trektarfónn, sem enn virkar.
Alltaf dýrmætara og dýrmætara
Sigurjón Samúelsson andaðist í ágúst árið 2017. Hann vildi að plötur hans yrðu varðveittar eftir hans dag og færu á safn, þar sem almenningur gæti notið tónlistarinnar, og nú hefur sú ósk ræst. Aðspurður um helstu dýrgripina í hljómplötusafni Sigurjóns Samúelssonar nefnir Ólafur J. Engilbertsson elstu plöturnar, Vorgyðjuna, eftir Árna Thorsteinsson og Guðmund Guðmundsson skólaskáld, í flutningi Einars Hjaltested, sem tekin var upp í New York árið 1916, og aðra plötu með Einari sem tekin var upp það sama ár í sömu borg. „Það er stórkostlegt að fá þetta í safnið,“ segir Bryndís að lokum, „þetta verður alltaf dýrmætara og dýrmætara, það segir sig sjálft.“
Sýningin í Þjóðarbókhlöðunni stendur fram á haust. Rætt var við Ólaf J. Engilbertsson og Bryndísi Vilbergsdóttur í Lestinni.
Ljósmynd: Kristján Frímann