Stórvirkið Flóra Íslands fékk í gær Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki fræðibóka og rita almenns efnis. Bókin er sú umfangsmesta sem út hefur komið um íslenskar plöntur og er það von höfunda að bókin glæði áhuga og auki um leið skilning fólks á plönturíkinu.

Bókin Flóra Íslands er glæsileg og yfirgripsmikil bók um íslenska plönturíkið og höfundar hennar eru Hörður Kristinsson, Þóra Ellen Þórhallsdóttir og Jón Baldur Hlíðberg en sá síðastnefndi er höfundur myndefnis. Hörður ræddi í fyrstu um þátt Jóns Baldurs Hlíðberg í verkinu, sem hann sagði stóran og þar lægi gríðarmikil vinna að baki. Jón Baldur hafi leitað uppi og safnað saman öllum þeim 467 tegundum plantna sem fjallað er um í bókinni. „Okkur Þóru Ellen finnst honum hafa tekist einkar vel að fanga fegurð og útgeislun plantnanna í sínum myndum, oft betur en hægt er að gera á ljósmyndum,“ sagði Hörður í ræðu sinni um hina fagurmyndskreyttu bók, Flóru íslands

Hörður segir hlutverk þeirra Þóru hafi verið að setja niður eftir bestu getu alhliða fróðleik um allar tegundirnar eftir margvíslegum heimildum. „Þannig var til uppsláttarrit þar sem myndir og upplýsingar um hverja tegund eru saman komnar á einum stað,“ segir Hörður en í bókinni er öllum 467 æðplöntutegundum íslensku flórunnar lýst í máli og myndum auk þess sem fjallað er ítarlega um byggingu, lífsferla og þróun plantna. Hörður þakkaði útgefendum bókarinnar og þeim sem komu að henni hjá Forlaginu, þeim Alexöndru Buehl sem sá um alla hönnun og Bjarna Guðmarssyni sem ritstýrði. Að auki þakkaði Hörður stofnunum sem komu að útgáfunni, Náttúrufræðistofnun og Háskóla Íslands. Síðast en ekki síst þakkaði Hörður fjölskyldum höfundanna fyrir ómetanlegan stuðning og þolinmæði.

„Sú er von okkar að bókin glæði áhuga og auki skilning almennings á plöntum,“ segir Hörður og ítrekar mikilvægi þess á þeim víðsjárverðu tímum sem við lifum. „Sjaldan hefur, í  470 milljóna ára sögu lífs á þurru landi, meiri ógn steðjað að líffræðilegri fjölbreytni jarðar en einmitt nú. Við mættum hafa í huga að plöntur komast vel af án okkar en við gætum aldrei lifað án þeirra. Þær eru grundvöllur fyrir næstum allt annað líf hér á jörðinni. Á næstu áratugum munu verða miklar breytingar á lífríki Íslands, bæði vegna hlýnandi loftslags, breyttrar landnýtingar og útbreiðslu ágengra tegunda. Við stöndum frammi fyrir vandasömum ákvörðunum um hvernig best er hægt að standa vörð um flóru landsins og fjölbreytni hennar. Það er því mikilvægt að rækta virðingu og ást á því lífi sem við deilum með á jörðinni og við vonum að bókin verði framlag til þess, þótt í litlu sé,“ voru lokaorð í þakkarræðu Harðar Kristinssonar sem ásamt þeim Þóru Ellen Þórhallsdóttur og Jóni Baldri Hlíðberg fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki fræðibóka og rita almenns efnis, fyrir bókina Flóra Íslands– blómplöntur og byrkningar.