„Plastið er að kæfa lífríkið“

12.02.2017 - 19:39
Það ætti að vera sjálfsagður hlutur að týna upp rusl. Þetta segir skipuleggjandi hreinsunargöngu sem var haldin á Laugarnesinu um helgina.

Lengi tekur sjórinn við - en á hverri mínútu fer um bílfarmur af plasti í sjóinn. Á síðasta ári spáði Alþjóðaefnahagsráðið því að árið 2050 verði meira af plasti í sjónum heldur fiski, ef fram heldur sem horfir. 

Plastrausl er tiltölulega algeng sjón í fjörunum við Reykjavík. í Laugarnesfjöru var snyrtilegra um að litast í dag en í gær, þökk sé sjálfboðaliðum sem hafa tekið til hendinni.

„Það eru rosa góðar undirtektir. Fullt af lækum á Facebook. Læk á Facebook eru rosalega hvetjandi - þau eru svona konfektmolar. Svo er það er rosa gott þegar lækin mæta líka á svæðið, með hendurnar sínar og tína upp rusl,“ segir Björg Fríður Elíasdóttir, skipuleggjandi göngunnar. 

Sjálfboðaliðarnir gengu um Laugarneshverfið í dag og í gær tíndu upp rusl, sem annars endar í sjónum. Björg segir mikilvægt að almenningur sé vakandi fyrir þessari umhverfisvá.

„Við sjáum öll plast í trjánum, við sjáum plast við ströndina. Við vitum hvert þetta er að fara; þetta er að fara í hafið. Svo sjáum við myndir af hvölum sem eru fullir af plasti. Við vitum alveg hvað er að gerast ef við lokum ekki augunum fyrir því. Plast er virkilega að kæfa lífríkið,“ segir Björg.  

Og sjálfboðaliðarnir sjá ýmis tækifæri í þessu. Ágústa Harðardóttir vill að fólk geti tekið landskika í fóstur. „Og þá sjái kannski nokkrir saman um um sama bútinn. Ef þetta yrði vinsælt yrði borgin hreinni,“ segir Ágústa.

Reynar Ottósson er á sama máli. „Það skiptir rosa miklu máli, að taka til hendinni í smástund. Við erum bara búin að vera í klukkutíma og þetta er orðið stútfullur pallur. Ef fólk gerir þetta reglulega, týnir saman drasl þegar það er að labba og gefur sér tíma til að hugsa um nærumhverfið sitt, þá er hægt að gera ótrúlega mikið gagn,“ segir Reynar.

Björg Fríður segir nauðsynlegt að ruslatínsla sé eðlilegur hluti af lífi fólks. 

„Að við hugsum að það sé eðliegt að beygja sig niður og taka upp rusl, setja það í næstu ruslatunnu. Ekki að við hugsum, hey borgin á að gera þetta, einhver annar á að gera þetta. Ekki við? Hvað erum við að gera þegar við gerum þetta? Við erum að koma í veg fyrir að lífríkið okkar skemmist,“ segir Björg.