Stórir framleiðendur eins og þeir sem eiga vörumerkin Dove og Neutral hafa hætt að nota plastagnir í snyrtivörur. Birgitta Stefánsdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, segir að þær séu fullkominn óþarfi. Fyrirtæki taki nú mjög hratt við sér því neytendur vilji ekki kaupa vörurnar. Andlitsskrúbbur, líkamsskrúbbur og tannkrem með hvíttunar-áhrifum eru líklegri til að innihalda plastagnir en aðrar snyrtivörur.

Birgitta fór í verslun með umsjónarmanni Spegilsins til að gefa góð ráð um hvernig best er að finna út úr því í hvaða snyrtivörum eru plastagnir. 

Umhverfismerktar vörur innihalda ekki plastagnir

Þeir sem vilja forðast snyrtivörur sem innihalda plastagnir lenda oft í vandræðum þegar þeir standa fyrir framan hillurnar í búðunum því ekki er augljóst hvaða vörur eru umhverfisvænar og hverjar ekki. 

Birgitta segir að það sé ekki einfalt að vera neytandi í dag. Ef fólk vill velja rétt sé hægt að hafa nokkra einfalda hluti í huga. „Til dæmis ef þú velur vörur sem eru umhverfismerktar og þá með Svaninum eða Evrópublóminu þá eru ekki plastagnir í þeim vörum.“

Einnig eru til tæki og smáforrit sem eru mjög hjálpleg. Hægt er að hlaða þeim niður í símann og nota til að skanna strikamerkin á vörunum og þá kemur í ljós hvort varan inniheldur smáagnir. Vinsælasata appið Beat the Microbeat.   

Fyrirtækin bregðast við þegar neytendur hætta að kaupa

Birgitta segir að dregið hafi verulega úr plastögnum í snyrtivörum „og það var kannski bara af því það er mjög auðvelt að skipta þeim út fyrir önnur efni.“ 

Hvaða framleiðendur tóku svona fljótt við sér og hættu að nota plastagnir?    „Unilever var eitt fyrsta fyrirtækið sem kom með svona yfirlýsingu.“

Unilever á fjölmörg vörumerki eins og til dæmis Dove og Lux. Fyrirtækið lýsti því yfir að það yrði hætt að nota plastagnir fyrir 2015.  „Og önnur fyrirtæki fylgdu á eftir, eins og Nivea. Ég held að þeir hafi ákveðið að vera búnir að taka þetta út fyrir 2020. Þannig að það eru ennþá í sumum Nivea-vörum plastagnir.“

„Þeir hafa verið að vinna mjög hratt í því að taka út plastagnir en vörulína þeirra er stór og það tekur tíma.“

„Strax og neytendur fara að gera kröfur þá bregðast fyrirtækin við ef þetta er svona stórt umræðuefni. Maður á ekki að vanmeta neytendamáttinn.“ 

Andlitsskrúbbur og hvíttunar-tannkrem

Gott er að vera meðvitaður um hvaða vörur eru líklegastar til að innihalda plastagnir. „Þú þarft kannski ekki að vera að leita í svitalyktareyði að plastögnum af því að það er ólíklegt að svitalyktareyðir innihaldi plastagnir.  En í þessum skrúbbum og það er eiginlega allt sem hefur einhvers konar skrúbb-effekt er líklegra að sé með plastagnir. Það er andlistskrúbbur, líkamsskrúbbur, tannkrem sem er með hvíttunar-áhrif og aðrar þannig vörur.“  

Ekki er líklegt að plastagnir séu í sjampói. Plastagnir frá snyrtivörum er mjög lítill hluti af því plasti sem endar í sjónum. Birgitta segir að ótrúlega einfalt sé að skipta plastögnunum út. „Þannig að þetta er fullkominn óþarfi og líka þetta eru vörur sem fara beint niður í sjó. Það er ekkert sem stoppar þetta á leiðinni. Og svo náttúrlega ættum við kannski að taka þetta alvarlegar á Íslandi af því skolphreinsistöðvarnar okkar eru ekki að ná út neinum af þessum efnum.“ 

Í tillögu að aðgerðaráætlun í plastmálum er lagt til að bannað verði að setja örplast í snyrtivörur 1. janúar 2020. Nú þegar hefur verið bannað að setja örplast í snyrtivörur í Bretlandi.