Smári McCarthy, þingmaður Pírata, segir að sinn flokkur vilji að varlega verði farið þegar dregið verður úr eignarhaldi ríkisins í bönkunum. Stöðugleiki verði að vera til staðar, verðið gott og kaupendur áreiðanlegir. Brynjar Níelsson, Sjálfstæðisflokki, telur að allar forsendur séu til þess um þessar mundir að selja hlut ríkisins í bönkunum.

Smári og Brynjar eiga báðir sæti í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis. Þeir voru gestir Kastljóss í kvöld. Smári sagði að Píratar væru þeirrar skoðunar að ríkið ætti ekki að eiga bankana til frambúðar, en þeir vilji passa að varlega verði stigið til jarðar þegar þeir verða seldir, ekki rasað um ráð fram, heldur gengið í verkið skref fyrir skref.

Brynjar kvaðst þeirrar skoðunar að allar forsendur væru til þess núna að selja eignarhlut ríkisins í bönkunum. Það væri áhætta að eiga bankana, þeir væru sextán prósent af eignasafni ríkisins. Ekki væri hægt að reikna með því að slíkur hagnaður væri af rekstri bankanna og verið hefur að undanförnu.