Pétur Sigurgeirsson biskup er látinn, 91 árs að aldri. Pétur varð biskup Íslands árið 1981 og gegndi því embætti til 1989. Hann fæddist á Ísafirði, 2. júní árið 1919, sonur hjónanna Guðrúnar Pétursdóttur og Sigurgeirs Sigurðssonar, sem var sóknarprestur á Ísafirði og síðar biskup Íslands. Pétur varð sóknarprestur á Akureyri árið 1947 og starfaði þar þangað til hann tók við embætti biskups af Sigurbirni Einarssyni.
Pétur varð vígslubiskup Hólastiftis hins forna árið 1969 og starfaði mikið að æskulýðsmálum innan kirkjunnar. Eftirlifandi eiginkona hans er Sólveig Ásgeirsdóttir. Þau eignuðust fjögur börn.