„Þannig heldur stíllinn uppi lágstemmdri spennu sem kallar á lestur, ekki með flugeldum heldur alveg eins þögulli ákefð,“ segir Gauti Kristmannsson um nýjustu bók Guðrúnar Evu Mínervudóttur.
Gauti Kristmannsson skrifar:
„Ástarsambönd eru ekki til“ er mottó þessarar bókar, tilvitnun í geðlækninn og sálgreininn Jacques Lacan og það má segja að sú ljúfsára melankólía sem þræðir sig í gegnum tilveru sögupersónanna undirstriki það. Þetta eru fyrstu persónu sögur allar saman, sagðar frá sjónarhóli kvenna sem á vissan hátt hafa flestar lent í lífinu, ef svo má að orði komast. Einhvern veginn minna þessar fígúrur mig á myndir eftir Edward Hopper, skýrar en um leið dularfullar, harmrænar en þó ekki dramatískar, melankólískar í einsemd sem þær reyna að rjúfa og tekst það misvel.
Þó er það engan veginn þannig að þær lendi ekki í dramatískum viðburðum, eða að minnsta kosti óvenjulegum og jafnvel kostulegum; sögurnar byrja gjarnan á rólegri og raunsærri mynd sögukonu, en síðan kemur eitthvað fyrir sem kemur róti á lífið, þær lenda í því og þurfa að takast á við það og komast sumar að því að þær skilja ekki aðeins lífið illa, heldur einnig sig sjálfar.
Sögurnar eru lauslega tengdar gegnum ýmsar persónur, sterkast í gegnum tvo íslenskumælandi mormóna sem koma fyrir í tveimur þeirra og ýta við konunum, án þess þó að snúa þeim beinlínis; þeir gefa þeim kannski þetta vink sem til þarf að stíga til hliðar og horfa á sjálfan sig frá nýju sjónarhorni. Það er líka styrkur þessara sagna, sem eru nokkuð langar smásögur, persónurnar þróast og þroskast, þótt ekki sé það alltaf eins og þær vilji eða ætli. Þær eru sagðar örlítið krónólógískt í aldri sögukvennanna og mynda þannig dálítið mósaík mannsævi, án þess þó að höfundur rembist við að tengja þær þannig. Ljúfsár kaldhæðnin sem einkennir þær líka gefur persónunum dýpt sem kallar þær fram fyrir augað og gerir uppátæki þeirra skiljanlegri, stundum er ekkert við lífið að gera annað en það næsta og það er bæði sorglegt og íronískt, en um leið kannski sjálfsagt, eins og ein þeirra lýsir þar sem hún afgreiðir í sjoppu:
„Inn um dyrnar eitt kvöldið hefði gengið fínlegur og listrænn ungur maður, alger andstæða hnakkatískunnar sem reið röftum á þessum tíma, og fallið í stafi yfir afgreiðslustúlkunni sem var svona mikill listunnandi. Við hefðum orðið ástfangin og skapað okkur innihaldsríkt líf saman.
Í staðinn lagðist ég undir sjoppueigandann.“
Sögurnar búa allar yfir einhverjum svona umskiptum sem koma lesendum á óvart og breyta tilfinningu þeirra fyrir sögukonunum, þær þurfa allar einhvern veginn að takast á við venjulegt líf, jafnvel verra en það, og grípa þá stundum til þess sem hendi er næst. Eða ekki, eins og sögukonan í sögunni „Smit“ sem verður gripin af einhverju sem hún skilur ekki, ræður ekki við, en hlýðir einhverju, það er ekki hægt að kalla það ást eða eðli, það leiðir hana ekki neitt, nema kannski út úr sjálfsblekkingu sælulífs sem hún taldi sig lifa.
Dauðinn er heldur ekki langt undan í þessum sögum sem snúast um tilvistina, dauðvona ættingjar, ástvinir, koma fyrir eins og þau sjálfsögðu fyrirbæri sem þau eru í lífinu og það er ekki dvalið við það, ekkert viktorískt dauðastríð sem tekur síðasta hálftímann í óperu, heldur ekki kaldranalegt og ópersónulegt, aðeins þarna og raunar tekst síðasta söguhetjan á við væntanlegan dauða sinn af æðruleysi húmorsins og lífsviljans, en sagan „Hús hinna deyjandi“ endar á kostulegan hátt sem fær lesandann til að brosa gegnum melakólínuna.
Stíll bókarinnar er dálítið í samræmi við myndir Hoppers, eins og efnið, að mér finnst, hann miðlar persónum, stöðum, aðstæðum mjög raunsæislega, en samt er ljóst að við erum að sjá eitthvað sem við þurfum að túlka til að skilja, ef við getum það þá, það er kannski ekki nauðsynlegt, jafnvel ekki gott. Þannig heldur stíllinn uppi lágstemmdri spennu sem kallar á lestur, ekki með flugeldum heldur alveg eins þögulli ákefð; lesandinn ég vildi fara með þessum persónum áfram, þótt ég væri ekki viss um að ég hefði haft áhuga á því ef þeim hefði verið lýst fyrir mér með öðrum hætti. Þannig vinna stíllinn og efnistökin lesandann á sitt band og hann fer að hafa áhuga á persónum sem við fyrstu sýn eru lítt áhugaverðar, og það sem meira er, þær vinna hug manns og hjarta jafnvel þótt athafnir þeirra fari í taugarnar á manni, jafnvel þótt þær taki upp á hlutum sem rökhyggja manns mótmælir kröftuglega og maður ímyndar sér að maður gerði það aldrei sjálfur. En kannski rennur upp fyrir manni ljós, einmitt þá, að það er engin fjarstæða, við lendum öll í lífinu á einhverjum tímapunkti og gerum eitthvað sem rökhugsuninni finnst fjarstæðukennt.
Bókin svarar þannig að einhverju leyti einkunnarorðum sínum, ástarsambönd eru víst til, en þau eru kannski ekki eins og okkur er innrætt, þau eru brothætt, sleip, ímynduð, tækifæriskennd og jafnvel ómöguleg. Þau hlýða heldur engum, ekki hinum ástföngnu eins og lesa má sögunni „Smit“ og þau geta orðið til upp úr neyð eins og í sögunni „Hús hinna deyjandi“. Þau eru alltaf innan seilingar og handan. En þannig gera þau þeim sem lenda í lífinu kleift að lifa því.