Birgir Jakobsson landlæknir segir að peningar til heilbrigðiskerfisins nýtist ekki nógu vel og að Landspítalinn hafi ekki forsendur til að gegna hlutverki sínu sem sjúkrahús allra landsmanna.

Birgir Jakobsson landlæknir segir að ekki sé verið að skapa Landspítalanum forsendur til að gegna hlutverki sínu sem sjúkrahús allra landsmanna. „Það er t.d. verið að veita síauknu fjármagni í það sem við köllum stofupraksís sérfræðinga,“ sagði Birgir í Samfélaginu á Rás 1 í dag. Þetta þýði að þeir séu í hlutastarfi á háskólasjúkrahúsinu.

„Og háskólasjúkrahús sem er með meirihlutann af sínum sérfræðingum í hlutastarfi, það hlýtur að eiga mjög erfitt með að skila sínu hlutverki.“

Birgir segir að ekki sé nægilega skýr sýn til staðar.

„Raunverulega ekki og það eru burðir til að segja að við þurfum að byrja upp á nýtt. Við þurfum að byggja nýtt háskólasjúkrahús. Við þurfum að skapa aðstæður fyrir háskólasjúkrahús í nánum tengslum við Háskólann. Jafnvel þar erum við ekki alveg sammála, það koma ólík skilaboð héðan og þaðan sem tefja málið og svo framvegis. Og við erum þá á sama tíma að veita milljarði eftir milljarð í sömu forsendurnar, það er að segja í sjúkrahús sem raunverulega hefur ekki allar góðar forsendur til að sinna sínu hlutverki og ég held að við verður að snúa þessu við.“

Hann segir að meðan sérfræðiþjónusta á stofum í Reykjavík hafi verið styrkt jafnt og þétt þá hafi sérfræðiþjónustu úti á landi ekki verið sinnt.

„Allt of mikið er það þannig að sérfræðiþjónustan úti á landi er rekin á  forsendum sérfræðinga og ekki á forsendum sjúklinga eða heimamanna.“

Birgir telur að við höfum verið að veita því fé sem ætlað er í heilbrigðismálin í gamalt kerfi sem hann hafi áður bent á að hafi verið á rangri leið í mörg ár.

„Ég held að peningarnir séu að fara þar sem þeir nýtast ekki nógu vel.“