Paradís án vatnsúðarakerfis

03.05.2017 - 16:26
Lestin · Pistlar · Menning
„Hvað er það sem veldur því að við gerum stundum ekki það sem við eigum að geta gert?“ Halldór Armand Ásgeirsson, rithöfundur, fjallar um lamandi hugsanir í pistli sínum í Lestinni á Rás 1.

Halldór Armand Ásgeirsson skrifar: 

KR-ingar urðu Íslandsmeistarar í körfubolta liðinn sunnudag, þetta var fjórði titill þeirra á fjórum árum. Úrslitarimman við geysilega sterkt og kraftmikið lið Grindvíkinga fór alla leið í oddaleik, það er að segja bæði liðin höfðu unnið tvo leiki, og það þýddi að fimmta og síðasta leikinn þurfti til að skera úr um hvort liðið ætti titilinn skilið. Bæði lið höfðu jafnframt unnið leik á útivelli í rimmunni svo það var mikil spenna fyrir leikinn. KR-ingar þykja, á pappír eins og sagt er, vera með eitt allra besta ef ekki besta lið sem sést hefur í íslensku deildinni og þeir spýttu heldur betur í lófana fyrir þennan síðasta leik tímabilsins og unnu afar öruggan sigur í stórkostlegu andrúmslofti í Frostaskjóli.

Nema hvað, það var áhugavert að sjá liðið spila af slíku öryggi því það hefur oft og tíðum ekki verið mjög sannfærandi í deildinni í vetur. Margoft réðust úrslitin ekki fyrr en á síðustu mínútunni og liðið sætti iðulega gagnrýni þrátt fyrir að vinna flesta leiki. Liðið átti að vera yfirburðalið en spilaði ekki sem slíkt. Liðið spilaði með öðrum orðum ekki eins og það hefði getað spilað. Hvað er það sem veldur slíku? Hvað er það sem veldur því að við gerum stundum ekki það sem við eigum að geta gert? Hvers vegna stöndum við svona oft ekki undir væntingum? Hvers vegna missum við svona oft tökin á okkur sjálfum, hæfileikum okkar, hugsunum okkar, gjörðum okkar og hreinlega lífi okkar?

Mér fannst athyglisvert að eftir leik sagði Finnur Stefánsson, hinn mjög svo farsæli þjálfari KR-inga, að liðinu hefði tekist að „stíga til baka úr hvirfilbyl hugsananna, við höfum stundum verið fórnarlamb eigin árangurs. Það er alltaf ætlast til mikils af okkur og við ætlumst til mikils af okkur sjálfum. Við höf­um stund­um gleymt að spila og njóta og ein­beitt okk­ur of mikið að því sem and­stæðing­ur­inn er að gera. Í dag spiluðum við og treyst­um hvor­um öðrum.“

Mér fannst þetta vel orðað hjá þjálfaranum. Hver kannast ekki við að sjá ekki til sólar í hvirfilbyl hugsananna, ríghalda sér í titrandi viðargrindverk í huga sínum svo maður sogist ekki alveg upp í ógnvekjandi og hringiðandi streymið sem æðir áfram og leggur allt í rúst sem verður á vegi þess, rífur upp tré, þeytir upp bílum og búfé, mylur í sundur innviði og lamar samgöngur. Svona er þetta stundum, því meira sem við hugsum, því minna getum við gert. Við stöndum úti á svölum í stilltri maírigningunni sjúgandi Trópí-fernu og horfum stjörfum augum út í buskann, lömuð af hugsun og algjörlega sviplaus, okkar ytri ásýnd kyrr eins og málverk meðan stormurinn geysar hið innra. Stundum setjum við meira að segja upp hina kátu grímu hjartans, brosum og flissum, en erum í raun ekki á staðnum heldur týnd einhvers staðar á svamli um haldlausar skýjaborgir. Hvirfilbylur mannsandans hefur kastað okkur á sporbaug um eina af hugmyndasólunum þremur og við sjáum ekki til jarðar aftur. Við erum pælingaþrælar, hlekkjuð við eigin ranghugmyndir meðan lífið rennur hjá. Við sjáum gammana sveima yfir okkar innstu hugsunum og rekum upp skaðræðisvein meðan við leitum að nýjum felustað, við felum þær í hanskahólfinu, við vefjum þær í peysu og setjum undir bögglaberann, við gröfum þær lifandi undir túlípanabeði. Við getum ekki orðað tilfinningar okkar, við getum ekki sagt þær upphátt, getum í besta falli tjáð þær með táknum, með vopnum hins óræða, og þegar við svo lygnum aftur augum á koddanum hvíslum við eins og Jagó að okkur sjálfum: Sá sem ég er, er ég ekki. 

Mannslíf í ótilhlýðilegri nálægð við aðalgötu

Já, það er ekki alltaf beinlínis lauflétt viðfangsefni að vera manneskja, eða svo við grípum til orðfæris og lífsviðhorfa Reykjavíkurborgar, þá stendur mannleg tilvera einfaldlega ekki við aðalgötu, mannleg tilvera er ekki í tilskilinni nálægð við nærþjónustukjarna, mannleg tilvera er starfsemi sem telst vera í flokki 4B vegna þess að hún þess veldur ónæði í nágrenninu og þetta staðfestir úrskurðarnefnd tilvistar- lífsfyllingarmála endurtekið í niðurstöðum sínum. Við erum bara að reyna að hafa gaman. Málið er í ferli, vinnan er í gangi, reyna að hafa gaman, málið er í ferli, vinnan er í gangi, reyna að hafa gaman, málið er í ferli, vinnan er í gangi.

Eitt af því sem gerir hið mennska hlutverk svo vandasamt, svo við höldum áfram flögrinu á dramatíska sviðinu, er vandmálið sem snýr að lífi og hugsunum annarra, ráðgátan um hina. Hvað er annað fólk eiginlega að hugsa? Maðurinn sem situr á næsta bás við þig og er að horfa á NBA-highlights eða Charles Bukowski lesa ljóð á YouTube, hvað er á seyði í höfði hans? Hvaða tilfinningar eru að brjótast um í honum? Langar hann í gulrótartertusneið? Er hann stoltur af unglingsárum sínum? Hvað var hann gamall þegar hann kynntist Fallinu mikla? Á hann eitthvað sameiginlegt með systkinum sínum? Finnst honum lífið vera eilíft bergmál hins sama? Væri hann helst til í að þú værir einhvers staðar annars staðar?

Þetta er það sem Finnur átti við þegar hann sagði að KR-ingar hefðu um of beint sjónum sínum að því sem „andstæðingurinn var að gera.“ Í þetta verjum við nefnilega lífi okkar, að brjóta heilann um það hvað aðrir eru eiginlega að hugsa, af hverju þeir segja eitt en gera annað, af hverju læka þeir mynd af þér einn daginn en skilja þig eftir með sprungið dekk þann næsta. Já, hvað er eiginlega á seyði, hvað er annað fólk alltaf að hugsa um, hvað vill það, hvað veit það, veit það hvað það vill, veit það einhver, veit einhver eitthvað, af hverju erum við hérna, af hverju er eitthvað fremur en ekkert, úr hverju er mannssálin sett saman, af hverju gerist sumt en annað ekki, er tíminn línulegur eða er allt bæði að gerast í einu og aftur og aftur, hver er áferð lífsandans, hvers vegna er Guð þögull og af hverju hafnaði hann sjálfum sér á Krossinum, hver setti þessa skopparakringlu af stað, hver sáldraði öllum þessum hvítlauk á pizzuna, hver mun borga reikninginn og hversu hár verður hann, af hverju eru svona spurningar álitnar viðfangsefni fyrir væmna unglinga, af hverju eru þessar spurningar ekki tússaðar á baðherbergisspegla, af hverju eru þær ekki í hástöfum á leiðarasíðununum?

Svo rennur oddaleikurinn upp í lífi þínu og hann fer fram fjarri einhverju sem kallast aðalgata, fjarri nærþjónustukjarna, handa ferla og kerfa og mála í vinnslu, og þú færð boltann þegar tíminn er að renna út í fjórða leikhluta og hvað ætlarðu að gera, mæla hvað hringurinn er langt í burtu eða spyrja hagsmunaaðila um skotleyfi, eða láta bara einhvern annan fá boltann af því þú vilt fá að hugsa aðeins á miðjuhringnum hvað aðrir á vellinum eru að hugsa, nei, taktu skotið, taktu stóra skotið, taktu alltaf stærsta skotið, taktu trúarstökkið upp á við, út úr heimi aðal- og aukagatna og Excel-skjala og inn í ástríðu æðri þjónustu og þegar boltinn syngur í netinu stendur allt húsið skyndilega í ljósum logum og þú þakkar Guði fyrir að það sé ekkert vatnsúðarakerfi í paradís.

Mynd með færslu
Anna Gyða Sigurgísladóttir
dagskrárgerðarmaður
Lestin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi