Nýlega sendi Háskólaútgáfan og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur frá sér tvímálaútgáfu á öllum ljóðum sílenska skáldsins Pablo Neruda sem birst hafa stök í íslenskum þýðingum ólíkra þýðenda í gegnum tíðina. Það voru þær Kristín I. Pálsdóttir og Hólmfríður Garðarsdóttir sem söfnuðu saman ljóðunum sem birtast í bókinni Hafið starfar í þögn minni sem Hólmfríður ritstýrir og ritar jafnframt formála að.

Fyrsta ljóð Pablos Neruda í íslenskri þýðingu var „Kveðja“ úr fyrstu ljóðabók Neruda Crepulculario frá árinu 1923 og birtist í tímaritinu Birtingi  1959 og var það Jóhann Hjálmarsson sem þýddi. Síðar áttu mörg fleiri skáld eftir að spreyta sig á ljóðum Neruda, þeirra á meðal Sigfús Daðason, Dagur Sigurðarson, Ingibjörg Haraldsdóttir og Berglind Gunnarsdóttir. Það er athyglisvert, segir Hólmfríður Garðarsdóttir í viðtalinu hér að ofan, hvernig val ljóða til þýðinga endurspeglar sögulegar aðstæður í Síle og pólitískan áhuga á Íslandi, einkum á sjöunda og áttunda áratugnum. Á níunda áratugnum voru það fremur ástarljóð Neruda sem íslenskir þýðendur kusu að snúa yfir á íslensku og birta.

Fyrsta heila ljóðabókin eftir Pablo Neruda í íslenskri þýðingu kom ekki út fyrr en árið 1996. Það var Guðrún H. Tulinius sem þýddi ljóðabókina Tuttugu ljóð um ást og einn örvæntingarsöngur sem kom fyrst út í heimalandi höfundar árið 1924. Guðrún þýddi einnig ljóðabókina Hæðir Machu Pichu og kom hún út árið 2004 sem og ljóðabókin Bók spurninganna í þýðingu Þórs Jónssonar Hraundal. Þá hefur verið gefið úrval ljóða Neruda í þýðingu Hallbergs Hallsteinssonar.

Pablo Neruda fæddist í Síle árið 1904. Hann nam frönsku og franskar bókmenntir við Háskólann í Sandiego og mun hafa stefnt að því að verða kennari. Hann var þó þá þegar farin að birta ljóð sín en fyrsta ljóðabók Crepusculario kom út 1923 og árið síðar Tuttugu ljóð um ást og einn örvæntingarsöngur. Ekki löngu síðar ferðaðist hann sem fulltrúi lands síns til Asíulanda en það ferðalag og dvöl hans á Spáni í kjölfarið virðist hafa haft mikil áhrif á pólitíska afstöðu hans. Hann var félagi í Kommúnistaflokki Síle og gengdi ýmsum embættum fyrir flokkinn bæði heima og erlendis.

Árið 1969 vildi flokkurinn tilnefna hann til forseta landsins. Neruda kaus að afþakka það vegna vinar síns og Salvator Alliende sem 1970 varð forseti og gerði Neruda að sendiherra í París. Neruda var því í París, reyndar fársjúkur af krabbameini, þegar honum var tilkynnt að hann hefði fengið Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1971.

Pablo Neruda lést  í Síle 23. september árið 1973, tólf dögum eftir að her landsis hafði steypt stjórn Salvators Alliende af stóli og gert Augusto Pinochet að forseta landsins. Tveimur dögum eftir andlátið voru jarðneskar leifar hans bornar til grafar að viðtöddu fjölmenni, þar á meðal erlendum blaðamönnum og ljósmyndurum. Líkfylgdin varð að endingu að fyrstu mótmælagöngunni gegn herforingjastjórninni í Síle.