Mikil óvissa er um sorpmál á Suðurlandi. Eftir margra ára árangurslausa leit að urðunarstað fyrir óflokkað sorp er áformað er að senda það utan til brennslu.
Sveitarfélög á starfssvæði Sorpstöðvar Suðurlands hafa í fjölda ára sent óflokkaðan úrgang til urðunar hjá Sorpu. Nú er svo komið að Sorpa neitar að taka á móti frekari úrgangi frá þessum sveitarfélögum.
Árangurslaus leit að urðunarstað
Málið á sér langan aðdraganda. Urðunarstað Sunnlendinga var lokað 2009 og móttaka úrgangs hjá Sorpu hefur verið háð þeim skilyrðum að Sunnlendingar leggi einnig til urðunarstað. Starfsvæði sorpstöðvarinnar er nokkuð víðfeðmt en þrátt fyrir það hefur leit að urðunarstað ekki borið árangur.
Jón Valgeirsson, stjórnarformaður Sorpstöðvar Suðurlands, segir að málið sé í vinnslu. „Framtíðarlausnin er tvenns konar. Annars vegar hvar það endar þegar búið er að flokka allt í burtu og það getur vel verið að það verði útflutningur. Við erum að horfa svolítið þangað núna. Svo getur það auðvitað breyst, við eigum svolítið eftir að sjá hvernig það er. Við erum auðvitað áfram að leita að urðunarstað á Suðurlandi, sem var nú kannski forsendan fyrir því að Sorpa tók þessa ákvörðun,“ segir Jón.
Markmiðið að minnka úrgang
Sveitarfélögin hafa gripið til þess ráðs að hvetja fólk til þess að vera duglegt að flokka, svo það verði minna af óflokkuðum úrgangi. Liður í því er að setja upp brúna tunnu fyrir lífrænt sorp. „Markmiðið er alltaf það að minnka það magn af úrgangi sem fer í urðun eins og kostur er og endurnýta og endurvinna og nota allt sem við mögulega getum gert. Við höfum, bara Íslendingar allir, ekki staðið okkur nógu vel í því.“
Hitta umhverfisráðherra í næstu viku
Það sé á ábyrgð stjórnvalda, ríkis og sveitarfélaga, að koma sér saman um stefnu. Sorpstöð Suðurlands á fund með umhverfisráðherra og Umhverfisstofnun í næstu viku. „Samtalið verður bæði þá um þetta sem við þurfum að glíma við akkúrat í augnablikinu og svo líka kannski bara hvernig sjáum bara betri úrgangsheim,“ segir Jón.