Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeiganda, segir óvenju litla samkeppni á olíumarkaði hér á landi og að þegjandi samráð sé nú ríkjandi. Aðhald fjölmiðla og samtaka eins og FÍB sé forsenda þess að olíuverð taki breytingum.
Runólfur var gestur Morgunútvarpsins á Rás 2 í morgun. Hann segir fyrirtæki á olíumarkaði hér á landi vera sátt við sinn hlut og reyni þar af leiðandi ekki að skapa sér sérstöðu með því að keppa í verði. Óvenju lítil samkeppni sé á markaðnum og álagning á eldsneyti hafi hækkað við samruna Haga og Olís og N1 og Krónunnar. Hann segir menn hræddari við að rugga bátnum en að halda öllu óbreyttu á markaðnum. Öll stærstu fyrirtækin séu í eigu sömu aðila sem geri það að verkum að þegjandi samráð sé ríkjandi á markaðnum.
„Það var auðvitað mikil umræða í samfélaginu um þessi félög fyrr á árinu, þá var í gangi samrunaferli, annars vegar á milli Haga og Olís og hins vegar milli N1 og Krónunnar. Það fékkst fyrir rest að þetta fór í gegnum samkeppniseftirlitið, þessi samrunaferlar, og eitt af því sem að félögin lögðu mikla áherslu á í sínum gögnum til eftirlitsins var að þetta yrði svo mikið til hagsbóta fyrir neytendur. Það sýnir sig nú sjálft í verki að þegar þetta er allt farið í gegn og þau hafa fengið þessar samþykktir þá snarhækkar álagning á eldsneyti til dæmis.“
Þá segir Runólfur að ef ekki væri fyrir aðhald fjölmiðla og samtaka líkt og FÍB, væri lítið um lækkanir.
„Það gerist ekkert fyrr en fjölmiðlar og samtök eins og okkar fara af stað. Þá sjáum við eitthvað allt í einu fara að breytast. Þannig að menn hanga á öllu þar til að einhver fer að rugga bátnum. Það er ekki það að markaðurinn sjálfur sé á tánum og sjái tækifæri. Heldur þarf eitthvað aðhald fjölmiðla og samtaka eins og okkar til þess að eitthvað gerist. Við sáum það bara í gær, í kjölfar þess að þetta komst í almenna umræðu, bæði í gegnum alþjóðapressu og í gegnum það sem að fer í gang hér. Þá kemur allt í einu lækkun og bensínverð lækkaði um fimm krónur í gær. Þetta er handvirk lækkun, ekki einhver viljaaðgerð að hálfu fyrirtækja sem vilja skapa sér góða stöðu gagnvart sínum neytendum. “
Hann segir olíufélögin skýla sér á bak við flókna verðmyndun sem eigi sér enga stoð í raunveruleikanum. Eftirlit af hálfu hins opinbera sé nauðsynlegt til að fylgjast með markaðnum betur. „Það hefur verið svolítil lenska að halda því að fólki. En í grunninn er þetta bara mjög einsleit vara, einfalt í sjálfu sér, og þetta á sér eitthvað heimsmarkaðsverð og viðmið og það ætti alveg það sama að gilda á okkar markaði eins og í nágrannalöndum okkar. Auðvitað ætti að vera eitthvað öflugt eftirlit af hálfu opinberra aðila, fylgjast með þessum markaði betur, við höfum auðvitað upplifað það að hér hefur verið bara opið samráð og síðan er til svokallað þegjandi samráð sem við virðumst vera að upplifa núna og bara löngum áður. “