Bubbi Morthens hefur síðustu misseri unnið að nýrri plötu með fólki sem hann hefur lítið sem ekkert unnið með áður. Hljómplatan ber nafnið Regnbogastræti og segir Bubbi að ef hann væri kokkur kallaði hann plötuna hráfæði.

Regnbogastræti vann Bubbi með upptökustjóranum og bassaleikaranum Guðmundi Óskari Guðmundssyni og pianóleikaranum Hirti Ingva Jóhannssyni sem báðir eru í hljómsveitinni Hjaltalín, Erni Eldjárn sem spilar á gítar og trommaranum Þorvaldi Þór Þorvaldssyni sem lemur húðir. Fjölmargar valinkunnar raddir má heyra á plötunni og má þar nefna Valdimar Guðmundsson, Katrínu Halldóru Sigurðardóttur, Elísabetu Ormslev og Stefaníu Svavarsdóttur. Bubbi mætti í Poppland og sagði Matthíasi Má frá plötunni og frumflutti eitt laganna, sem heitir Velkomin.

„Það eru alls konar lög á þessari plötu. Þetta er ekki eins og Tungumál, þar sem var bara ein lína eða eitt þema, það eru alls konar lög þarna. Það eru þarna lög sem minna á Bubba þegar ég spilaði með Kapitalinu eða Egóinu. Það eru alls konar stílar á þessari plötu,“ segir Bubbi um Regnbogastræti. „Músik er alls konar og ef ég væri kokkur þá myndi ég næstum því segja að þetta væri hráfæði. Þetta eru allt lifandi hljóðfæri, þarna er engin tölva, þetta er allt beint af kúnni og sem betur fer er enn þá þannig tónlist gerð. Þú getur farið í tölvu og náð þér í forrit, þú þarft ekki endilega að hafa þekkingu á hljóðfærinu til þess að búa til tóna og rytma og fleira. En það verður allt rosa flatt og allt rosa líkt. Tónlist í dag er rosalega lík hvor annarri. Allar raddir hljóma eins, þú heyrir ekki sársaukann, angistina eða kvíðann, eða þessa snörpu fegurð og allt það,“ segir Bubbi.

„Þetta er kærleikur. Þetta snýst allt um kærleika og ást,“ segir Bubbi um lagið Velkomin. „Kærleikur er það eina sem við þurfum. Svo er það óttinn, sem er þessi frumhvöt sem er nauðsynleg fyrir okkur. Við þurftum að hafa hann til að ljónin myndu ekki éta okkur eða ef stríðsmaður ræðst á þorpið. Ótti í dag virðist eiga rosalega ríkan aðgang að fólki en svarið er auðvitað kærleikur og ást. Ef þú ert fullur af sjálfskærleika þá hverfur óttinn. Þetta lag fjallar bara um það að opna faðminn og vera óttalaus. Við eigum ekki að láta afvegleiða okkur, af til dæmis stjórnmálafólki, sem er fullt af ótta og reyna að stýra öðrum á þessum ótta. Við erum á þeim tímum í dag að óttinn er á sigurgöngu, hann er eins og raketta í uppsveiflu. Þannig að ástin er allt sem þarf,“ segir Bubbi.