Davíð Torfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela, segir að ekki sé hægt að fleyta launahækkunum út í verðlag. Hann vilji glaður hækka laun en líta verði til heildaráhrifa. Hann segir að ef til verkfalls kemur verði einhverjir gestir að þola að ekki verði þrifið hjá þeim. Mögulegt er að koma upp stöðvum á hótelgöngum þar sem gestir geti nálgast hrein handklæði.

„Langar mig að borga fólkinu mínu hærri laun? Já. Langar mig til að borga fólkinu þau laun sem kröfugerð verkalýðsfélaganna hljóðar upp á? Já, ég væri rosalega til í það. Svigrúmið er bara ekki svona,“ sagði Davíð Torfi í Morgunútvarpinu á Rás 2. Hann sagði að horfa yrði lengra fram í tímann við gerð kjarasamninga og verja kaupmátt sem hefði tekist að byggja upp á síðustu árum. „Við vitum það að þetta mun hafa áhrif á verðbólgu. Þetta mun hafa áhrif á gengi krónunnar mögulega.“

Davíð Torfi sagði að nú verði farið að kanna viðbrögð við verkfalli. Meðal annars að kanna hverjir mættu ganga í hvaða störf. „Það er auðvitað allt hægt. Auðvitað er það þannig að einhverjir gestir gista fleiri en eina nótt, eru kannski frá fimmtudegi til laugardags, þeir munu væntanlega þola að það verður ekki þrifið hjá þeim. Við munum setja upp einhverjar stöðvar á hótelgöngunum með handklæðum sem þau geta gengið í.“

Davíð Torfi sagði að Ísland væri nú þegar dýr áfangastaður og hótelgisting dýr í samanburði við löndin í kring. Því væri ekki hægt að fleyta launahækkunum út í verðlag. Þá sagðist hann óttast að umfjöllun erlendra fréttamiðla um verkfall hafi mikil áhrif. Orðsporið sé dýrmætt og það verði að vernda. 

Lágmarkslaun á hótelum eru um 300 þúsund krónur á mánuði miðað við vinnu tvær helgar í mánuði með vaktaálagi, sagði Davíð Torfi. Fólk í lægst launuðu störfunum er að meðaltali með um 330 til 340 þúsund krónur á mánuði. „Nei nei, þetta eru ekki há laun, það er alveg rétt. Þetta er bara raunveruleiki sem blasir við okkur. Gjarnan myndi ég vilja hækka þetta miklu meira en þau spil sem eru á borðinu en við þurfum alltaf að horfa á heildaráhrifin, hver þau verða.“

Davíð Torfi sagði að misjafnt væru hversu vel hótel eru í stakk búin að taka á sig miklar launahækkanir.