Framkvæmdastjóri á Landsspítalanum óttast að yfirvofandi verkfall leikskólakennara muni raska starfsemi spítalans og að draga þurfi úr þjónustu. Viðræðum í kjaradeilu leikskólakennara og sveitarfélaganna verður framhaldið á morgun.
Að óbreyttu hefst verkfall leikskólakennara á mánudaginn. Fulltrúar Félags leikskólakennara og samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga hittust á sáttafundi í morgun. Fundinum lauk án þess að nýtt tilboð kæmi fram, en annar fundur er fyrirhugaður klukkan ellefu í fyrramálið.
Haraldur Freyr Gíslason er formaður Félags leikskólakennara, segir léttara yfir fólki en það geti haft eitthvað með það að gera að í dag er föstudagur. „Við erum engu nær samkomulagi. Okkur ber skylda til að sitja yfir helgina og reyna til þrautar (að ná samkomulagi).“
Viðbúið er að yfirvofandi verkfall leikskólakennara muni hafa víðtæk áhrif á samfélagið. Mörg fyrirtæki hafa gert ráðstafanir til að gera barnafólki kleyft að sækja vinnu, en stjórnendur Landspítalans hafa þungar áhyggjur af því að yfirvofandi verkfall leikskólakennara muni raska starfsemi spítalans. Þar starfa um 4000 manns.
Erna Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannauðssviðs Landspítalans, segir að menn hafi mestar áhyggjur af því að þurfa að draga saman starfsemi ef verkfallið dregst á langinn. „Það sem fyrst fer frá okkur valstarfsemi, það er það sem við óttumst mest er að þurfa að draga saman starfsemi. Það er mjög erfitt að þurfa að gera það. Við vitum öll hvað það þýðir. Landspítalinn er háskólasjúkrahús og endastöðin í íslensku heilbrigðiskerfi. Þannig að ef við þurfum að draga saman, þá býðst þessi þjónusta ekki í landinu.“