Gunnar Guðbjörnsson, skólastjóri Söngskóla Sigurðar Demetz, óttast að þurfa að loka honum á næstunni þar sem fjárframlög ríkisins undanfarin ár hafi ekki fylgt launahækkunum. Hann telur að nýlegt samkomulag ríkis og sveitarfélaga um stuðning við tónlistarnám gagnist ekki einkareknum tónlistarskólum.
„Þessar skólar í Reykjavík, sem eru einkareknir, þeir lenda sennilega á næstu árum í mikilli kreppu því að þetta samkomulag er byggt upp eins og samkomulagið sem var á undan, árið 2016, sem þýðir í rauninni það að það er ekki fylgni milli launahækkana og þess sem við fáum í framlag með þessum jöfununarsjóðs ríkishluta,“ segir hann.
Gunnar bendir á að skólarnir hafi fengið fjárveitingu frá ríki og borg árið 2015 til að vinda ofan af vanda sem þá var. Hann vonar að í þetta sinn verði hægt að gera samning til framtíðar og losna við óvissuna. Í hans skóla eru rúm 70 prósent nemenda á mið- og framhaldsstigi. Undanfarin ár hafi laun verið hækkuð og því til viðbótar hafi skólar þurft að greiða eingreiðslur vegna hækkana aftur í tímann. Gunnar segir að á tímabilinu 2017 til 2018 hafi eingreiðslurnar verið samtals á milli þrjár og fjórar milljónir króna. „Það er auðvitað mjög stórt slag fyrir svona skóla eins og okkar, og það hefur ekkert með stærðina á skólanum að gera, það er mjög mikið í rekstri skóla sem er ekki rekinn í hagnaðarskyni.“
Að hans mati var nýlegt samkomulag ríkis og sveitarfélaga ekki til eflingar á starfsemi einkarekinna skóla heldur til að enda hana. Hann óttast að þurfa að loka skólanum. „Það á bara eftir að reikna það hvernig þetta nýja framlag dreifist á næsta vetur og hvernig útlitið verður með launahækkanir. Kannski tekst okkur að þreyja þorrann í eitt ár en kannski loka ég bara strax næsta haust. Það er bara ekkert annað hægt að gera í þessari stöðu.“