Englendingurinn Sam Parsons sýndi hreint ótrúleg tilþrif um miðja fyrstu lotu í úrslitaviðureign sinni við Indverjann Bodhit Joshi í einliðaleik karla í badminton á Reykjavíkurleikunum í dag. Parsons ákvað í miðju rallýi að snúa sér allt í einu við, og setti spaðann undir klofið um leið og hann stökk upp og náði hreint lygilegu höggi yfir netið og hélt boltanum í leik.

Parsons vann svo reyndar ekki stigið, en hann vann viðureignina hins vegar 2-0. Parsons vann loturnar á móti Joshi 21-14 og 21-17.

Myndskeið með tilþrifum Parsons má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.

Bretar og Indverjar sigursælir

Bretar og Indverjar voru sigursælir í badmintonkeppni Reykjavíkurleikanna. Rohan Kapoor og Kuhoo Garg frá Indlandi unnu Kristoffer Knudsen og Isabellu Nielsen frá Danmörku í úrslitum tvenndarleiksins, 2-1 (16-21, 21-19 og 21-18). Saili Rane frá Indlandi vann Vaishnavi Reddy Jakka sem einnig er frá Indlandi í úrslitum einliðaleiks kvenna, 2-0 (22-20 og 21-12).

Skotarnir Julie Macpherson og Elanor O'Donell unnu Emilie Furbo og Trine Villadsen frá Danmörku í úrslitum tvíliðaleiks kvenna, 2-1 (17-21, 21-13 og 21-17). Skotarnir Alexander Dunn og Adam Hall unnu svo Danina Nicklas Matthiasen og Mikkel Stoffersen í úrslitum tvíliðaleiks karla, 2-0 (21-16 og 21-18).