„Öspin er náttúrulega öflug tegund þó að hún sé ekki vinsæl alls staðar. Hún er öflug í vexti, ef það er hægt að nota orðið „kolefnisbindari“, sem mér finnst nú kannski ekki sérlega fallegt orð og ég veit ekki hvort að er til, þá er hún mjög góður kolefnisbindari á ákveðnum fasa í sínu lífsskeiði,“ segir Brynhildur Bjarnadóttir skógarvistfræðingur við Háskólann á Akureyri.

Brynhildur fjallaði um rannsókn á kolefnis- og vatnshringrás í asparskógi í framræstri mýri, í Samfélaginu á Rás 1. 

Rannsaka vistkerfi með öspum hátt á þrítugsaldri

„Við skoðum tvenns konar landnýtingu. Rannsóknin fer fram í Skeiða- og Gnúpverjahreppi á svæði sem heitir Sandlækjarmýri. Þarna var stórt og mikið votlendi sem var ræst fram í kringum 1960 og var notað sem létt beitarland í nokkuð mörg ár. Í kringum 1990 var gróðursett ösp á þessu svæði, “ segir Brynhildur.

Skoða samspil tveggja landnýtingaraðgerða

„Við erum annars vegar að skoða framræsluna, sem er landnýtingaraðgerð sem við vitum að veldur yfirleitt kolefnislosun,“ segir Brynhildur. „Svo setjum við skóginn ofan í framræsta landið. Það er landnýting sem bindur kolefni. Þannig að við erum skoða samspilið á milli þessara tveggja landnýtingaraðgerða.“ 

Orðið öflugt vistkerfi

Skógurinn í Sandlækjarmýri er 85 hektarar. „Þetta er mjög stór og þéttur asparskógur og er í dag orðið ansi öflugt vistkerfi,“ bendir Brynhildur á. „Hann var gróðursettur sem tilraunareitur að hluta til og hefur verið mikið rannsakaður í dag. Við settum upp þarna heilmikil mælitæki til að fylgjast með flæði kolefnis í þessum skógi. Og erum nú búin að vinna úr mæliseríu, sem við kynnum á fagráðstefnu Skógræktar í dag.“ 

Það eru til tvenns konar aðferðir til að mæla bindingiu kolefnis í skógi að sögn Brynhildar. 

„Annars vegar beinar mælingar. Þá mælum við kolefnisflæði yfir skóginum. Við reisum turn inni í skóginum og hann þarf að ná upp fyrir trén. Síðan setjum við gasgreini upp á turninn fyrir ofan skóginn og svo mælum við flæðið á kolefninu inn og út úr skóginum og ef við mælum nógu ört og yfir nógu langan tíma, getum við fengið ársgildi.“

Önnur aðferð sem er meira notuð og krefst minni tækjabúnaðar, það eru svokallaðar óbeinar mælingar.

„Þá eru mæld sjálf trén í skóginum og reiknað út frá lífmassa þeirra hversu mikið kolefni er bundið í viðkomandi tré. Þá erum við að mæla sjálft tréð en í hinum mælingunum erum við að mæla allt vistkerfið. Þær mælingar henta til dæmis þegar við erum líka að skoða losunina frá framræstu mýrinni, þá fáum við út jöfnuðinn,“ segir Brynhildur. 

Óvæntar niðurstöður

„Það kom okkur skemmtilega á óvart að það var mikil kolefnisbinding á þessu svæði. Tölur sem voru háar og alveg með þeim hæstu sem við sjáum almennt í skógum á Íslandi,“ segir Brynhildur. „Það segir okkur að það er mikill vöxtur í öspinni þarna. Þegar við fórum að rýna betur í þær og finna skýringarnar af hverju það er svona mikil binding þarna, af því að við vitum að þetta stendur á framræstri mýri og það á að vera mikil losun á kolefni úr jarðveginum, en bindingin í skóginum yfirtekur hana svona mikið.“

Tvær mögulegar skýringar

Það getur verið að öspin á þessu svæði sé í mjög örum vexti, bendir Brynhildur á, og bindi feikna hratt og mikið vegna þess að hún sé á þeim tíma í lífsferlinum. 

„Hin skýringin er jarðvegurinn þarna í Sandlækjamýri. Þetta svæði er frekar illa ræst fram, það er mjög blautt þarna stóran hluta ársins,“ segir Brynhildur, en bendir jafnframt á að svæðið þroni vissulega yfir hásumarið. „En blautt svæði og há vatnsstaða gefur til kynna að niðurbrotið á lífræna efninu í jarðveginum sem verður vegna framræslunnar er sennilega frekar hægt eða tiltölulega bælt.“

Ekki víst að aðrar trjátegundir myndu þrífast svo vel

Brynhildur gerir ráð fyrir að það sé samspil þessara tveggja þátta sem valdi þessari litlu losun af svæðinu; mikil binding í öspinni og tiltölulega bæld losun úr framræsta jarðveginum vegna þess að vatnsstaðan er svo há á svæðinu.  Hún bendir jafnframt á að það sé mikil úrkoma á þessum slóðum. „Þannig að þetta hjálpast að við að halda vatnsstöðunni hárri, en kemur ekki niður á vexti asparinnar. Hún er frekar sækin í raka og henni virðist líða mjög vel þarna og hún vex gífurlega hratt. En ég get ekki fullyrt að allar trjátegundir myndu vaxa í þessu vistkerfi eða við þessar aðstæður,“ segir Brynhildur Bjarnadóttir skógarvistfræðingur. 

Viðtalið við Brynhildi má hlýða á í heild sinni í spilaranum hér að ofan.