Formaður Eflingar segir að ýmis verkfallsbrot hafi verið framin á hótelum í dag meðan á verkfalli þerna stóð. Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segist ekki þekkja að nein alvarleg dæmi hafi komið upp og því ber að fagna.
Í spilaranum hér að ofan er hægt að horfa á umfjöllun RÚV í kvöldfréttum um verkfallið í dag.
„Starfsfólk Eflingar sinnti verkfallsvörslu út um allan bæ og því miður voru ýmis verkfallsbrot framin sem, eftir því sem ég best veit, að fólk sem ekki má var að ganga í störf þeirra sem höfðu lagt niður störf,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. Hún segir að yfirlit um atvik verði tekið saman og farið yfir þau með lögfræðingum Eflingar.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, var í samskiptum við mörg hótel í dag. „Það virðist sem þetta hafi sloppið fyrir horn. Því sé kannski fyrst og fremst að þakka góðum undirbúningi og samhentu átaki allra til að gera það besta úr erfiðri stöðu.“ Lögmenn SA fóru víða og leiðbeindu stjórnendum um hvað mætti gera meðan á verkfalli stæði. „Ég þekki ekki að það hafi komið upp nein alvarleg dæmi og því ber að fagna.“