Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, er ekki sammála nýju frumvarpi tveggja þingmanna Samfylkingarinnar á afnámi verðtryggðra neytendalána. Hann segir það rétt neytenda að tryggja sig gegn sveiflum í afborgunum á meðan að veikburða króna sé gjaldmiðill landsins.
„Ég tel ekki rétt að banna þessi lán. Ég tel rétt að fólk fái aukið valfrelsi og að við reynum að þróa lánamarkaðinn þannig að hlutfall óverðtryggðra lána hækki,“ sagði Árni Páll í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2.
Í gær lögðu Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Helgi Hjörvar fram frumvarp á Alþingi um afnám verðtryggingar neytendalána. Í greinargerð með frumvarpinu segja flutningsmenn að markmið frumvarpsins sé að leggja bann við verðtryggingu neytendalána, ekki síst eigi það við lán til kaupa á húsnæði.
„Það er eðlilegt í lýðræðissamfélagi, þar sem við búum við gríðarlega veikburða gjaldmiðil, að fólk hafi rétt til þess að verja sig gegn sveiflum í gjaldmiðlinum. Ef menn vilja verja sig gegn sveiflukenndum húsnæðisafborgunum þá er verðtryggingin líklega skásta leiðin til þess í dag en hún er vissulega mjög dýr.“ Sjálfur sagðist Árni Páll vera með verðtryggt húsnæðislán og að hann treysti sér ekki til að breyta því í óverðtryggt af ótta við sveiflur.
Árni Páll sagði stefnu Samfylkingarinnar skýra. Flokkurinn vilji afnema verðtryggingu en með því að taka upp annan gjaldmiðil. „Sterkan gjaldmiðil sem hægt er að hafa viðskipti með utan landsteinanna og þar með losna við verðtryggingu sem megin reglu á íslenskum lánamarkaði.“
Stefna flokksins væri að auka vægi óverðtryggðra lána en ekki að afnema verðtryggingu. „Þessir tveir þingmenn eru þeirrar skoðunar og það er eðlilegt að það rúmist ólíkar skoðanir innan flokksins.“