Öryrkjar gætu þurft að bíða í allt að átta mánuði eftir endurgreiðslum frá Tryggingastofnun vegna skerðingar á búsetuhlutfalli. Félagsmálaráðherra segir að áður en hægt verður að endurgreiða verði að athuga hvort öryrkjar hafi fengið bætur frá öðum löndum. Það geti tekið allt að átta mánuði að fá svör um það frá systurstofnunum Tryggingastofnunar annars staðar á Norðurlöndunum.
Umboðsmaður Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að skerðingar á bótagreiðslum vegna búsetu í öðrum löndum innan Evrópska efnahagssvæðisins standist ekki lög. Félagsmálaráðuneytið hefur fallist á niðurstöðuna og að endurgreiða beri öryrkjum sem hafa fengið skertar bætur. Ráðuneytið miðar við, samkvæmt fyrningarlögum, að greiða fjögur ár aftur í tímann. Sú upphæð gæti numið um tveimur milljörðum króna vegna um eitt þúsund öryrkja sem fengu ekki fullar bætur ár hvert. Krafa er um að endurgreitt verði að minnsta kosti 10 ár aftur í tímann. Þá er hugsanlega verið að tala um fimm milljarða. Halldóra Mogensen, Pírati og formaður velferðarnefndar Alþingis og Guðmundur Ingi Kristinsson, Flokki Fólksins, spurðu Ásmund Einar Daðason, félagsmálaráðherra, á Alþingi í dag um hvenær stæði til að hefja endurgreiðslur og hvers vegna ekki yrði greitt 10 ár aftur í tímann.
Þarf að hafa samband við systurstofnanir
Tryggingastofnun hefur upplýst að um næstu mánaðamót verði breytt framkvæmd á greiðslum kynnt og í framhaldinu verði farið í að reikna hvert mál fyrir sig. En upphafsgreiðslan getur tafist um marga mánuði, allt að átta mánuði. Ásmundur Einar Daðason segir að reynt verið að vinna málið eins hratt og auðið er en þetta snúist um rúmlega eitt þúsund manns.
„Það þarf að taka handvirkt mál hvers og eins, það þarf að hafa samband við hvern og einn einstakling og fara yfir málin með honum. Síðan þarf að hafa samband við systurstofnanir Tryggingastofnunar í þeim löndum sem viðkomandi hefur búið í og fá upplýsingar um greiðslur sem hafa verið inntar af hendi þar. Það er mjög misjafnt hvað það getur tekið langan tíma. Okkur hefur verið tjáð að það geti tekið allt að átta mánuði hjá Tryggingastofnun í okkar nágrannalöndum að svara slíkum fyrirspurnum,“ segir Ásmundur Einar. Erfitt sé að sjá fyrir tímasetningar í þessu máli. Mikilvægt sé að vinna það bæði rétt og vel.
Hærri greiðslur gætu haft áhrif
Ástæða skerðingar á bótagreiðslum hér heima er búseta bótaþega í öðru landi eða löndum. Gengið er út frá því að hann eigi líka rétt á bótum þar. Reyndin er sú að það er alls ekki víst. Búið er að taka upp starfsgetumat til dæmis í Noregi og Danmörku þar sem ekki er gert ráð fyrir hefðbundnum greiðslum eins og hér. Ráðherra segir nauðsynlegt að athuga hvort greiðslur hafi borist þaðan. Málið sé flókið og systurstofnanir Tryggingastofnunar gætu átt kröfu vegna breytinga á bótagreiðslum hér heima. Þess vegna sé nauðsynlegt að fá upplýsingar frá löndum sem viðkomandi hefur búið í.
„Og jafnframt að miðla upplýsingum til systurstofnana í öðrum löndum um hvernig við klárum málið því það getur haft einhver áhrif þar rétt eins og Samband sveitarfélaga er búið að boða að það ætla að skoða málið hér. Hvort það hafi einhver áhrif að viðkomandi fái hærri greiðslur frá Tryggingastofnun. Það getur það haft sömu áhrif í nágrannalöndum þegar koma leiðréttingar því þetta spilar allt saman,“ segir Ásmundur Daði. Hann nefndir Samband sveitarfélaga vegna þess að öryrkjar sem fengið hafa skertar bætur hafa þurft að leita eftir fjárhagsaðstoð frá sveitarfélögum.
Spurt var á Alþingi í dag hvort það væri pólitísk ákvörðun að greiða fjögur ár aftur í tímann en ekki 10 eins og krafa er um. Ráðherra segir að endurgreiðslutíminn komi í ljós þegar ákveðið verður hvernig staðið verður að endurgreiðslunum. Hann segir að árin fjögur helgist af almennum rétti krafna.
„Reyndar hefur verið bent á að oft og tíðum hefur frekar verið stuðst við tvö ár vegna leiðréttinga í almannatryggingakerfinu. Þarna erum við að vinna með fjögur ár sem er bara almenn fyrningarkrafa. En eins og ég segi á eftir að ljúka og ákveða með hvaða hætti þetta verður gert og þá getum við vonandi kynnt það,“ segir Ásmundur Einar.