Of mörg dæmi eru um að lyfjaverð á Íslandi sé hærra en annarsstaðar. Þetta segir María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands. Samstarf Íslands, Danmerkur og Noregs á sviði lyfjamála var staðfest með undirritun samkomulags þess efnis í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í dag. Með samstarfinu er meðal annars vonast til þess að hægt verði að draga úr kostnaði við lyfjakaup. 

„Það er nú yfirleitt þannig að ef maður er tilbúinn til að kaupa inn meira magn að þá á maður oft kost á hagstæðara verði og það er það sem við reiknum með,” segir María. Hún tekur þó fram að samkomulagið snúist ekki einungis um kostnað heldur líka öryggi sjúklinga. „Það hafa veirð of mörg dæmi um að það komi upp lyfjaskortur og við reiknum fastlega með að með því að kaupa inn í meira magni með grannþjóðum okkar geti dregið úr lyfjaskorti og þannig aukist öryggi sjúklinga og það er auðvitað allra mikilvægast,“ sagði María. 

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir að um langt skeið hafi samstarf af þessu tagi verið í undirbúningi. „Og það er mjög ánægulegt að það verður af því núna að Ísland, Danmörk og Noregur sammælast um það að stíga fyrstu skrefin af því að hefja sameiginlegt útboð á tilteknum tegundum af mjög dýrum lyfjum,“ segir Svandís Hún segir það vera áhyggjuefni út um allan heim að dýrustu lyfin og nýjustu lyfin hafi tilhneigingu til þess að verða svo dýr að þau leggi umtalsvert álag á ríkissjóði, „Þar með talið á Íslandi og það er því mikilvægt hagsmunamál fyrir okkur og íslenska heilbrigðisþjónustu að ná verðinu niður og það gerum við með samstarfi við aðra,“ segir Svandís.