Örvarpið hefur aftur göngu sína

Kvikmyndir
 · 
Örvarpið
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Örvarpið hefur aftur göngu sína

Kvikmyndir
 · 
Örvarpið
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
29.08.2017 - 19:00.Vefritstjórn.Örvarpið
Örvarpið, vettvangur örmynda á Íslandi, hefur aftur göngu sína í september, þegar opnað verður fyrir umsóknir um þátttöku í fimmta tímabili þess á RÚV.

Örvarpið hýsir örmyndahátíð á vef RÚV — www.ruv.is/orvarpid — en einnig verður haldin uppskeruhátíð á Stockfish Film Festival næsta vor. Auk þess verður boðið upp á meistaranámskeið í örmyndagerð, fyrirlestra og  kynningar á örmyndaforminu og fjölda annarra viðburða sem tengjast örmyndum.

„Hægt verður að senda inn örmynd frá 1. september - 7. desember og í hverri viku velur valnefnd eina mynd til birtingar á vefnum. Í ár verður valnefndin skipuð Evu Sigurðardóttur kvikmyndagerðarkonu, og Sindra Bergmann Krakka-RÚV stjóra,” segir Harpa Fönn Sigurjónsdóttir, annar stofnandi Örvarpsins. Halldóra Rut Baldursdóttir, hinn stofnandi og umsjónarkona Örvarpsins bætir við: „Allir geta sent inn örmynd sína, í hvaða formi sem  er — tónlistarmyndband, tölvuteiknimynd, örleikverk, örsaga, heimildarörmynd, stuttmynd, ljóðlist, og svo framvegis. Valin verk verða í kjölfarið tekin til sýningar á Stockfish Film Festival næsta vor.”

Mynd með færslu
 Mynd: Örvarpið
Harpa Fönn Sigurjónsdóttir og Halldóra Rut Baldursdóttir.

Örvarpið stofnuðu þær stöllur Halldóra Rut og Harpa Fönn Sigurjónsdóttir fyrir fimm árum. „Við höfum verið að vinna saman í um sjö ára skeið, og vorum sjálfar að framleiða örmyndir — að fanga augnablikið og veiða hugmyndir og örsögur, en fundum svo að enginn var vettvangurinn til að sýna myndirnar. Við ákváðum því bara að stofna okkar eigin. Úr varð og tók RÚV vel í hugmyndina. Þeir hafa verið okkar helstu bakhjarlar síðustu tímabilin, ásamt Bíó Paradís.“

Þær hvetja almenning til að taka þátt, og sérstaklega ungu kynslóðina. Örvarpið er kjörinn vettvangur til að gera tilraunir með örmyndaformið – allt er leyfilegt. Eina skilyrðið er að myndin má ekki vera lengri en 5 mínútur. 

„Við viljum líka bæta því við að því fyrr sem myndin er send inn, því lengur er hún í pottinum og því meiri líkur á vali, en umsóknir loka 6. desember, og verður síðasta örmyndin birt 7. desember.“

Mikilvægar dagsetningar

 

1. september - opnar fyrir umsóknir
5. október - fyrsta birting 
6. desember - lokar fyrir umsóknir
Mars 2016 - örmyndahátíð Örvarpsins í Bíó Paradís á kvikmyndahátíðinni Stockfish, stockfishfestival.is

Sendu inn örmyndina þína!

www.ruvis/orvarpid

 

Tengdar fréttir

Menningarefni

Vinnur með kyngervi og transfólk í sigurmynd